Audi þarf að greiða risasekt

Þýskir dómstólar komust að þeirri niðurstöðu í morgun að sekta þýska bílaframleiðandann Audi, sem er dótturfyrirtæki Volkswagen, um 800 milljónir evra sem samsvarar um 108 milljörðum íslenskra króna vegna útblásturs frá bílum  fyrirtækisins sem sýndu minni útblástur en hann í raun var. Þar er átt við V6- og V8 dísilvélar sem Audi smíðaði og settar voru á markað með óviðeigandi hugbúnaðaraðgerð.

Ljóst er að þessi sekt mun óneitanlega koma niður á rekstri fyrirtækisins á næstu misserum. Audi hefur sent frá tilkynningu þar sem fram kemur að fyrirtækið sættist á sektina og lýsir yfir fullri ábyrgð.

Þegar saga málsins er skoðuð þá var það 18. júní i sumar sem var tilkynnt um handtöku á Rupert Stadler stjórnarformanni þýska bílaframleiðandans Audi. Handtökuna mátti rekja til rannsóknar á nýju útblásturshneyksli í Þýskalandi og vildu saksóknarar með handtökunni koma í veg fyrir að Stadler kæmi mikilvægum gögnum undan sem gætu reynst mikilvæg við rannsóknina.

Þess má geta að Audi innkallaði hátt í 900 þúsund bíla vegna málsins á síðasta ári en eftir skoðun þurfti ekki að laga nema nokkuð hundruð bíla.

Þetta mál minnir óneitanlega á útblásturshneykslið hjá Volkswagen sem upp kom í september 2015. Í stuttu máli þá var komið fyrir hugbúnaði eða forriti í tölvum bílanna sem skynjar það þegar byrjað er að mengunarmæla þá. Búnaðurinn gangsetur þá hreinsibúnaðinn í útblásturskerfi bílsins sem annars er lítt eða ekki virkur í venjulegri daglegri notkun hans. Þetta þýðir að mengunarmælingin sýnir mjög fegraða mynd af losun NOx sambanda og sótagna sem eru krabbameinsvaldar.