Auðvitað eru einhverjir hnökrar í byrjun

Í gær hófst innheimta veggjalda í Vaðlaheiðargöngunum og búast rekstraraðilar við að hátt í tvö þúsund bílar fari um göngin á sólarhring. Samkvæmt upplýsingum hafa verið keyptir miðar fyrir um 30 milljónir króna. Fram hefur komið að eftir sem áður verður hægt að fara um Víkurskarð en þar getur færð spillst yfir vetrartímann.

Gjaldið fyrir eina ferð án afsláttar í Vaðlaheiðargöngin kostar 1500 krónur fyrir fólksbíl. Gjaldið fyrir flutningabíla getur farið upp í sex þúsund krónur. Hægt er að fá afslátt með því að kaupa tíu ferðir en þá lækkar verðið fyrir fólksbíl í 1250 krónur. 40 ferðir sem kosta 36 þúsund krónur lækka verðið niður í 900 krónur og 100 ferðir sem kosta 70 þúsund krónur lækka verðið um helming eða niður í 700 krónur.

Til þess að greiða fyrir eina ferð þarf að skrá númer bílsins og greiða með korti. Þetta er gert með því að fara inn á veggjald.is eða tunnel.is. Það er líka hægt að skrá sig á appinu veggjald.is. Þar er hægt að kaupa staka ferð og greiða afsláttarferðir fyrir fram. Til að sleppa við sektir er best að skrá sig.  Hægt er að greiða staka ferð áður en ekið er í gegn og þremur klukkustundum eftir að komið er í gegn. Ef ekið er í gegn án þess að skrá né greiða er númerinu flett upp og eigandinn fær innheimtukröfu með álagi.

Myndavélar leika stórt hlutverk í Vaðlaheiðargöngunum, öfugt við það sem var í Hvalfjarðargöngum. Þar var hægt að greiða í gjaldskýli og ennfremur var í boði að greiða fyrirframferðir með afslætti sem skráðust inn á lykil í framrúðunni. Við Vaðlaheiðargöng hins vegar verða hvorki gjaldskýli né lyklar.  Teknar eru myndir af bílnúmerunum og þar með er ferðin skráð. Samslags kerfi eru til staðar í Skaftafelli og í Þjóðgarðinum á Þingvöllum sem sett voru upp á síðasta ári.

,,Þetta fer ágætlega af stað en við vissum auðvitað ekki nákvæmlega við hverju mátti búast í upphafi. Viðbrögðin láta ekki á sér standa en það er eins og oft vill verða að fólk er að skrá sig á síðustu stundu þótt opið hafi verið fyrir skráningu í þrjár vikur. Auðvitað eru einhverjir hnökrar í byrjun, margar spurningar og fyrirspurnir koma til okkar en það leysum við eftir bestu getu. Þeir sem hafa prófað og sett sig inn í hlutina virðast vera ánægðir,“ segir Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.

Um eitt þúsund bílnúmer verið skráð

Keyptir hafa verið miðar fyrir 30 milljónir króna og um eitt þúsund bílnúmer hafa verið skráð. Aðspurður hvort í þessum kaupendahópi séu stórir atvinnurekendur segir Valgeir það ekki stóran hóp. Aðallega séu þetta einstaklingar og væntanlega þeir sem eru búnir að kaupa 100 ferðir fyrir 70 þúsund krónur og búa austan við göngin. Ennfremur eru eflaust í kaupendahópnum íbúar á Akureyrarsvæðinu sem eiga ættir að rekja austur fyrir og sækja þangað í einhverju mæli. Valgeir segir ekki stóra atvinnurekendur í þessum hópi enn sem komið er. Eins eru ekki margir flutningabílar sem hafa verið skráðir en það mun færast í aukana þegar fram líða stundir. Valgeir segir að það eigi eftir að reyna á þetta enn frekar með auknum ferðamannastraumi þegar líður á árið.

,,Það átti aldrei að semja sérstaklega við ákveðna aðila sem um göngin fara. Það átti jafnt yfir alla að ganga. Gjaldskráin eru á netinu og við erum bundnir henni því að ekki verður hægt að veita meiri en 13% afslátt í stóru bílunum samkvæmt reglugerð. Við erum að fá fullt af athugasemdum, allt er þetta punktað niður og við munum skoða betur í framhaldinu. Það er bara komin lítil reynsla á alla notkun í göngunum. Við þurfum lengri tíma til sjá hvernig þetta gengur,“ segir Valgeir.

Fram kom í fréttum á RÚV í dag að framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar segir að fyrirtækið treysti sér ekki til að aka um Vaðlaheiðargöng miðað við þá gjaldskrá sem sem boðuð hafi verið. Veggjöld fyrir stóra bíla séu allt of há og hann vill viðræður um betri kjör. Þá vill hann fleiri gjaldflokka fyrir rútur. SBA vonast eftir að ná samkomulagi við Vaðlaheiðargöng en fundir aðila hafa átt sér stað til að finna lausnir í málinu.

Fundir með bílaleigunum halda áfram

Valgeir Bergmann er inntur því hvort niðurstaða hafi fengist við bílaleigurnar sem snýr að innheimtu vegna vangoldinna veggjalda.

,,Við erum búnir að eiga fundi með þeim og ráðgerðir eru fleiri slíkir á næstunni með það að leiðarljósi að finna lausnir. Aðal markmiðið verður að notandinn greiði en hægt er að borga fyrir staka ferð. Bílaleigurnar kvörtuðu aðallega undan því að ekki væri hægt að skrá nógu marga bíla í einu inn á kerfið. Fram hafa komið tillögur hvernig hægt verður að leysa þetta og við munum finna lausnir til framtíðar litið. Núna í byrjun erum við handvirkt að samþykkja greiðslurnar en á endanum verður þetta sjálfvirkt þegar allt verður komið í fullan gang,“ segir Valgeir Bergmann