Aukin álagning kostaði neytendur yfir 100 milljón krónur í október

Meðalkostnaður neytenda vegna álagningar, flutnings og dreifingar á bifreiðaeldsneyti var umtalsvert hærri í október samanborið við meðaltal þessa kostnaðar yfir árið.  Meðaltalan yfir fyrstu 10 mánuðina 2014, uppreiknuð til verðlags í október, á bensínlítra er 38,50 krónur og 39,04 á hvern dísilolíulítra.  Í október fór álagning og flutningur á hvern bensínlítra í 41,25 krónur og 43,30 krónur af dísilolíulítranum.  Þetta gerist þrátt fyrir nokkrar verðlækkanir á bensíni og dísilolíu síðustu vikurnar í kjölfar yfir 20% lækkunar hráolíuverðs á heimsmarkaði. 

Þessi hækkun álagningar í október kostar neytendur yfir 100 milljón krónur yfir mánuðinn.  Vegna hærri álagningar var meðalverð dísilolíulítra í október 5,30 krónum hærra en það hefði verið miðað við meðalálagningu ársins.  Bensínlítrinn var 3,40 krónum dýrari til neytenda í október vegna hærri álagningar.  Við þennan samanburð leggst virðisaukaskattur á hærra álag.

FÍB skráir daglega heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu og uppreiknar verðin með gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal.  Þetta kostnaðarverð ásamt sköttum hins opinbera er dregið frá skráðu daglegu útsöluverði íslensku olíufélaganna og þá kemur út álagning og flutningskostnaður á hvern lítra.  Tölfræðigögnin eru vísitala og viðmiðunarkvarði milli tímabila um kostnað neytenda vegna álagningar olíufélaganna og flutnings á eldsneyti.

Íslensku olíufélögin bjóða viðskiptavinum sínum ýmsa tryggðarafslætti, ávinning í formi punkta og dagstilboð í tengslum við viðburði s.s. gengi Íslendinga í landsleikjum eða Eurovision. FÍB hefur ekki gögn undir höndum varðandi áhrif tilboða og afsláttarkjara á meðal útsöluverð eldsneytis til neytenda. Útreikningar FÍB styðjast við daglegt skráð útsöluverð í sjálfsafgreiðslu á 95 oktan bensíni og dísilolíu. Ekki er tekið tillit til annarra afslátta og eða fríðindakjara né vægis þjónustverðs á tekjur olíufélaganna af eldsneytissölu enda eru þær breytur ekki aðgengilegar.

Meðalálagning olíufélaganna á hvern eldsneytislítra er líklega heldur lægri en álagningarvísitala FÍB en gefur engu að síður raunhæfan samanburð á milli tímabila.  Breyting í krónum og aurum, upp eða niður, mælist og þar með kostnaður eða ávinningur neytenda af verðþróuninni. Með því að uppfæra þessar tölur með vísitölu neysluverðs til verðlags í dag þá er hægt að fá sambærilega viðmiðun um þróun álagningar og kostnað neytenda vegna álagningar og flutnings á milli tímabila. 

http://fib.is/myndir/Bensin-okt-14.jpg

http://fib.is/myndir/Disil-okt-14.jpg

 

http://fib.is/myndir/BrentCrude.jpg