Bæjarstjórum hugnast ekki götulokanir

Í nýjum umferðarlögum sem taka gildi um næstu áramót hafa sveitarfélög og Vegagerðin heimild til að takmarka eða jafnvel banna tímabundið bílaumferð vegna loftmengunar. Sú heimild fékkst með samþykkt nýrra umferðarlaga á Alþingi í sumar og taka þau gildi í byrjun næsta árs. Í frétt á heimasíðu FÍB um þetta mál kom fram að langflest sveitarfélög hafa lýst yfir að þau hafi ekki áhuga að fara í aðgerðir með þessum hætti. Reykjavíkurborg hefur aftur á móti áhuga að fara í þessa vegferð í samvinnu með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, er ekki hrifinn að fara í svona aðgerðir finnist of einfalt að ætla að skella skuldinni á bílaflota borgarbúa, og eðlilegra væri að skoða að hvaða marki t.s ástand vega og lítil þrif stuðla að meiri svifryksmengun. Runólfur nefnir ennfremur að umferð þungra vöruflutningabíla hafi aukist mikið í kjölfar aukinna byggingaframkvæmda. Þetta kunni að eiga stóra sök á vandanum.

Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag kemur fram í viðtölum við fjóra bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu en þeim hugnist ekki að setja umferðarbann eða loka götum vegna loftmengunar.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að yfirvöld í Kópavogi hafi þrifið vegina og það hafi gefist vel. „Það hefur breytt mjög miklu þar sem okkar helsta vandamál er, til að mynda í Kópavogsdal. En að loka götum vegna mengunar – ég sé það bara ekki gerast,“ sagði Ármann við Morgunblaðið og bætti við að hann reiknaði með því að Kópavogur myndi ekki beita þessu heimildarákvæði.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, tekur í svipaðan streng og bendir á að helsta umferðaræð íbúa Mosfellsbæjar sé Vesturlandsvegur. „Það væri ekki skynsamlegt að loka honum. Það væri mun málefnalegra að þrífa veginn og rykbinda þegar aðstæður eru með þeim hætti.“

 „Mín fyrstu viðbrögð eru nei. Að loka fyrir bílaumferð hugnast mér alls ekki,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, en hún telur ólíklegt að hægt verði að framkvæma þessa hugmynd.

Þá segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, að hættuástand þurfi að skapast áður en gripið er til jafn róttækra aðgerða og götulokana. „Við munum auðvitað taka þátt í þessu samtali og skoðum það með öðrum sveitarfélögum hvað hægt sé að gera. Ég á ekki von á því að eitt sveitarfélag taki af skarið og loki einhvers staðar án samráðs.“

Á Akureyri hefur  verið varað er við miklu svifryki undanfarna daga og verður svo áfram.  Ásthild­ur Sturlu­dótt­ir, bæj­ar­stjóri á Ak­ur­eyri,segir  í sam­tali við Morg­un­blaðið að um­ferðarbann hljóta að vera „allra síðasta úrræði“ sem sveit­ar­fé­lög myndu grípa til. „Þegar menn grípa til þess ráðs að banna um­ferð, þá hljóta þeir að hafa reynt öll önn­ur úrræði án ár­ang­urs“.

Fram kemur í Morgunblaðinu að Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, að ekki sé búið að útfæra nákvæmlega hvaða úrræði það eru sem sveitarfélög gætu gripið til þegar kemur að því að koma böndum á loftmengun vegna umferðar.

Hjá Vegagerðinni er engin vinna hafin  í tengslum við umræddar heimildir í nýjum umferðarlögum.