Bætt aðstaða til að kaupa notaða bíla

Miklar framfarir hafa átt sér stað í sölumálum notaðra bíla að undanförnu, a.m.k. á suðvesturhorni landsins. Bílasölur hafa ,,hópað" sig saman á tveimur svæðum í Reykjavík og upplýsingagjöf um notaða bíla á Netinu hefur aukist verulega. Ekki má heldur gleyma því að á Selfossi og í Reykjanesbæ eru bílasölusvæði sem þjóna viðkomandi landssvæðum.

Nýju bílasölusvæðin tvö í Reykjavík eru annars vegar á Kletthálsi, en þar hafa fjórar bílasölur komið sér fyrir og hins vegar Bílakjarninn við Eirhöfða, þar sem aðrar fjórar bílasölur hafa aðstöðu. Sýningarsvæðin eru snyrtileg og vel skipulögð og að mörgu leyti má líkja þessari breytingu við þá byltingu sem varð þegar stórmarkaðir hófu innreið sína í verslun hér á landi.

Bílaumboðin hafa lengi vel rekið eigin söludeildir fyrir notaða bíla, en þróunin sýnist vera í þá átt að slík endursala er að nokkru leyti að færast til annarra bílasala eða, eins og í tilfelli Heklu, að Bílaþingið er að stórum hluta flutt á Kletthálsinn.

Miklar og góðar upplýsingar er nú orðið að fá á Netinu um notaða bíla til sölu. Þar má þó enn gera bragarbót, því oft vantar myndir af viðkomandi bílum og ítarlegri upplýsingar. Að öðrum ólöstuðum eru upplýsingarnar hjá Toyota um notaða bíla til fyrirmyndar, því þar er hægt að sjá söluskoðun viðkomandi bíls á Netinu og þannig gera sér betur grein fyrir ástandi hans.