Bandarískt áreksturspróf gagnrýnt

Margir valinkunnir evrópskir bílar koma ekki vel út úr nýju árekstursprófi bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar IIHS.Prófið er nýtt að því leyti að snertiflötur framendans í framaná-árekstri  hefur verið minnkaður úr 40 prósentum af breiddinni niður í 25 prósent. Talsmenn Mercedes og Audi segja að þessi nýi háttur endurspegli raunveruleikann verr en áður og gefi óraunhæfa mynd af því sem gerist við framanáárekstur.

Euro NCAP árekstrarprófin eru þannig að 40 prósent af breidd framendans rekast á hindrun sem bregst svipað við árekstrinum og annar bíll myndi gera. En í forsendum nýju 25% „overlap“ aðferðarinnar telja fræðimenn IIHS að ökumenn reyni að sveigja frá til að forðast yfirvofandi árekstur og því gefi 25 prósenta snertingin raunsannari mynd af því sem gerist við framanáárekstur. Sjá nánar hér.

Í fyrstu prófunarlotunni samkvæmt þesssari nýju aðferð voru 11 svokallaðra „betri“ bíla (Premium-bíla) í millistærðarflokki prófaðir. Audi A4 og Mercedes C-klass fengu dóminn „lélegir“ og sömuleiðis Lexus ES og Lexus IS.

Talsmaður Mercedes gagnrýnir þessa nýju prófunaraðferð harðlega og segir niðurstöður hennar óraunhæfar. „Við trúum því að raunveruleg slys gefi betri upplýsingar en tilraunir á rannsóknastofum,“ segir talsmaðurinn við fréttamann Reuters. Það sé út í hött að draga þá ályktun út frá þessum nýju niðurstöðum IIHS að Mercedes bílar séu óöruggir bílar.  Talsmaður Audi tekur í sama streng og segir að ekki sé mögulegt að taka þessar niðurstöður alvarlega því að slys í líkingu við þau sem árekstursprófið er ætlað að líkja eftir, séu afar fátíð. Því vísar IIHS hins vegar á bug og segir að 25 prósent af þeim ca tíu þúsund dauðaslysum sem verða á hverju ári í Bandaríkjunum séu einmitt af því taginu sem árekstursprófið líkir eftir.