Bannað að hlaða rafbíla í ferjum DFDS

Kaupmannahafnarlögreglan telur að bruni sem varð á dönsku ferjunni Pearl of Scandinavia á siglingu milli Osló og Kaupmannahafnar þann 17. nóvember sl. hafi byrjað í rafbíl sem var í hleðslu á bíladekki ferjunnar. DFDS, útgerðarfélag ferjunnar, hefur nú lagt blátt bann við því að rafbílum sé stungið í samband til hleðslu um borð í skipum sínum.

Rafbílum er byrjað að fjölga í umferðinni og veruleg fjölgun þeirra á næstu mánuðum og árum er fyrirsjáanleg. Í Danmörku og Svíþjóð er nú unnið að því að greina þær hættur sem kunna að vera tengdar rafbílum og notkun þeirra og semja og setja reglur um notkun bílanna og umgengni við þá. Ekki síst er það talið mikilvægt að björgunarfólk kunni til verka á slysstað þar sem rafbílar eiga hlut að máli.

Sérfræðingur hjá rannsóknarstofnun sænska rafiðnaðarins segir í samtali við Aftonbladet að þar séu rafbílamálin til skoðunar. Vitað sé að viss áhætta er tengd öllu sem viðkemur rafmagni og rafhlöðum, ekki síst hinum nýju og mjög öflugu líþíumrafhlöðum. Þær geti hitnað mjög mikið þegar verið er að hlaða þær og til að forðast eldhættu sé nauðsynlegt að kæla þær. Sömuleiðis verði raftenglar sem rafbílum er stungið í samband við til hleðslu að vera vottaðir og þannig gerðir að þeir slái út rafmagninu ef rafhlöðurnar ofhitna.

Bíllinn sem brunanum olli í ferjunni áðurnefndu var ekki upprunalegur rafbíll. Hann var af gerðinni Nissan Qashquai, hafði upphaflega verið dísilbíll en verið breytt í rafbíl. Framkvæmdastjóri dansks fyrirtækis sem hefur sérhæft sig í að breyta Nissan bílum í rafbíla segist við danska ríkisútvarpið hafa keyrt bílinn um borð í ferjuna og stungið honum þar í samband til hleðslu. Hann segist við Extra Bladet í Danmörku halda að skammhlaup hafi orðið í tenglinum, hugsanlega vegna rakamyndunar. Sjálfur taki hann á sínar herðar alla ábyrgð á því að hafa stungið bílnum í samband við raftengil sem ekki hafði verið vottaður sem hleðslutengill fyrir rafbíla.