Batnandi hagur Chryslers í Bandaríkjunum

 http://www.fib.is/myndir/Chrysler300.jpg
Chrysler 300 C.

Hagur hins bandaríska arms DaimlerChrysler hefur vænkast og nú hefur fyrirtækið boðið starfsmönnum sínum launahækkun um allt að 15% svo hægt sé að anna vaxandi eftirspurn. Bandaríski bílaiðnaðurinn hefur átt í miklum kröggum undanfarið og í lok síðasta árs gripu risarnir þrír; Daimler Chrysler, Ford og GM til mikilla gylliboða til að lokka að fleiri kaupendur. Hjá Chrysler hefur það virkað svo vel að afkoman varð réttu megin við núllið á síðasta ári og markaðshlutdeildin óx úr 13,6% í janúar í 15,1% í febrúar. (Hún var 14,8% í janúar 2005).

En hjá Chrysler láta menn ekki þar við sitja heldur auglýsa nú ný tilboð til að hreinsa út af lagerunum og auka markaðshlutdeildina enn frekar. Kaupendum nýrra bíla standa til boða sex ára vaxtalaus lán án afborgana fyrstu sex mánuðina og umboðsaðilar fá þúsund dollara afslátt af hverjum nýjum bíl sem þeir panta án þess að hafa tryggan kaupanda að honum. Chrysler vinnur því áfram á þeim nótunum að lokka nýja kaupendur með hagstæðum og góðum lánum. GM og Ford hafa á hinn bóginn farið þá leið að lækka verð á bílunum.

En í sambandi við launahækkanir hjá Chrysler er ekki allt sem sýnist. Forstjórinn, Tom LaSorda boðar verri tíma fyrir launþega í Bandaríkjunum í viðtali við New York Times. Þeir megi í náinni framtíð búast við því að þurfa að greiða sjálfir stærri hluta sjúkra- og eftirlaunatrygginga sinna og þeir hæst launuðu að greiða þær alfarið sjálfir. Kostnaður fyrirtækjanna, ekki síst hans eigin fyrirtækis vegna sjúkra- og eftirlaunatrygginga sé svo risavaxinn að hann verði einfaldlega að lækka umtalsvert. Til að draga úr þessum kostnaði býður Chrysler nú starfsmönnum sínum starfslokasamninga gegn eingreiðslu en markmiðið er að fækka starfsfólki um sex þúsund fram til ársins 2008, þar af eru 2.200 starfanna í Bandaríkjunum. Gangi það eftir er ljóst að vinnuálag á þá sem eftir verður mun aukast.