Beita fyrir bílaþjófa

Með betri þjófnaðarvörnum í bílum hefur bílaþjófnuðum farið fækkandi og kannski hvergi meira en í Kanada þar sem þeim hefur fækkað um 73 prósent á sl. áratug.

Innbrot í bíla eru verulegt vandamál um allan heim. Reynslan sýnir að líkur á innbrotum í þá aukast stórlega ef verðmæti eru sýnileg inni í þeim, svo sem fartölvur,–símar, myndavélar og áfengi. Lögregla og yfirvöld í Bresku Kólumbíu í Kanada gripu til nýs ráðs fyrir tíu árum gegn bílainnbrotum. Ráðið er að egna beitu fyrir innbrotsmenn með því að koma fyrir í völdum bílum sem lagt er hingað og þangað, munum eins og tölvum, farsímum, myndavélum og áfengisflöskum sem búið er að koma GPS sendi fyrir í.  Munirnir eru hafðir sýnilegir í bílunum til þess að freista þjófanna.

Um leið og brotist er inn í bílana og munirnir teknir, eða bílnum stolið, byrjar fyrrnefndur sendir að senda út staðarákvarðanir í móttökutæki lögreglunnar sem þannig getur fylgst nákvæmlega með því hvar þjófarnir eru staddir með þýfið og gómað þá snarlega.

Þegar þessar vinnuaðferðir hófust fyrir áratug síðan var Breska Kólumbía það svæði í N. Ameríku þar sem bílaþjófnaðir og bílainnbrot voru algengust. Síðan byrjað var að egna á þennan hátt fyrir þjófana hefur bílaþjófnuðum og bílainnbrotum fækkað um 74 prósent. Talsmaður lögreglunnar segir við fjölmiðla að það sé vegna þess að þjófarnir hafi nú komist að því að þeir verði örugglega gómaðir ef þeir rambi á það að brjótast inn í „beitubíl“ og fari nánast beint í fangelsi. Þá hafi þeir einnig komist að því fullkeyptu að í sumum beitubílunum eru myndavélar sem myndi þá og þær myndir og myndskeið geti allt eins ratað út á Internetið.  Fælingarmátturinn hafi því reynst ótvíræður.