Bensín með íblönduðum „Octane Booster“

Morgunblaðið greindi frá því í frétt í morgun að bensínfarmur sem landað var á Íslandi sl. vor hefði verið mengaður af vafasömu íblöndunarefni sem valdið hefði gangtruflunum í bílum. Hið óæskilega efni nefnist octane booster en íblöndunarefni með sama nafni hafa lengi fengist í bílavöruverslunum og á bensínstöðvum hér á landi.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að íblöndunarefnið hafi sest á kerti bíla sem þá hefðu misst virkni sína að einhverju leyti með þeim afleiðingum að gangtruflana í bílunum tók að gæta. Engar kvartanir hafa borist til FÍB vegna slíkra gangtruflana. Ævar Friðriksson tæknistjóri FÍB hefur í morgun aflað sér upplýsinga um gangtruflanirnar og hvernig verkstæði brugðust við þeim.

Umræddur farmur mun eftir því sem næst verður komist, hafa komið til landsins þann 19. apríl sl. og var honum dreift á afgreiðslustöðvar allra olíufélaganna. Bensínfarmurinn var keyptur af finnska ríkisolíufélaginu Neste Oil. Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá tæknideild N1 kom ekkert fram í þeim gögnum sem fylgdu farminum að búið væri að blanda octane booster íblöndunarefni saman við bensínið. Rannsóknastofa olíufélaganna; Fjölver, sem fylgist með efnasamsetningu og gæðum olíu og bensíns sem hingað kemur og tekur sýnishorn, fann ekki efnið í farminum umrædda, enda mun þurfa sérstaka tækni til þess sem ekki fyrirfinnst hér á landi. Þess skal getið að hlutfall íblöndunarefnisins var mjög lágt eða einn á móti 6-7 milljónum að sögn eins viðmælanda FÍB í morgun. 

Morgunblaðið greinir frá því að gangtruflanir hafi komið fram í bílum eftir að íblöndunarefnið hafði sest á kertin sem rauðlituð húð sem dró úr virkni kertanna. Það hafi síðan leitt til gangtrudlana.

Tæknimaður hjá olíufélaginu N1 sem FÍB ræddi við sagði að lítið væri vitað um sjálft íblöndunarefnið og efnasamsetningu þess. Sömuleiðis væri lítið vitað um hvort eða þá hvernig hugsanleg langtímaáhrif þess gætu orðið. Efni með þessu nafni væru víða bönnuð til blöndunar í bensín og hvorki fyrr né síðar hefði bensín með þessu efni verið áður flutt til landsins að því best væri vitað.

Tæknimaðurinn sagði að vel væri fylgst með þessu máli af hálfu N1 og  allar kvartanir sem bærust væru skráðar nákvæmlega í því skyni að grafast fyrir um og meta hugsanlegar afleiðingar og skaða.

FÍB vill benda þeim sem telja að umrætt efni gæti hafa valdið truflunum eða skemmdum á bílum þeirra, að halda vel utanum allar eldsneytiskvittanir og þá íhluti sem hugsanlega hefur þurft eða gæti þurft að skipta um í bílunum og vera tilbúnir að lýsa hugsanlegum bilunum og gangtruflunum skriflega í sem skýrustu máli.