Bensínfetilvandi Toyota í USA magnast enn
Í gær tilkynnti Toyota í Bandaríkjunum innköllun á 1,1 milljón bíla til viðbótar við áður gerðar innkallanir á 6,5 milljón bílum. Að þessu sinni nær innköllunin einnig til Pontiac Vibe 2009 - 2010 sem Toyota framleiðir fyrir GM. Allt þetta mikla umstang er vegna bensínfetils sem hætta er talin á að festist niðri í akstri. Að þessu sinni verða einhverjar Evrópugerðir Toyota einnig innkallaðar fljótlega, jafnvel allt að tvær milljónir bíla, að því er fram kemur í Financial Times.
Stjórnendur Toyota í Bandaríkjunum óttast nú, varla að ástæðulausu, að vörumerkið hafi beðið hnekki vegna þessara bensínfetilsvandamála sem engan enda virðast ætla að taka. Hætta getur verið á því að bílakaupendur snúi sér annað vegna þessa. Sumir bílafréttamenn telja þó að það hljóti að verða virt Toyota til vorkunnar hversu vel og snöfurmannlega fyrirtækið hefur brugðist við. Reyndar kom það fram í fréttum gærdagsins af framleiðslustöðvun Toyota í Bandaríkjunum að hún hefði verið gerð að kröfu NHTSA, bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar sem búin var að hóta því að stöðva tímabundið framleiðsluna með valdboði ef þrjóskast yrði við.
Eigendur Toyota sölufyrirtækja í Bandaríkjunum óttast nú að tiltrú á Toyota vörumerkinu minnki og sala Toyotabíla dragist saman um langan tíma. Ýmsir þeirra bjóða nú viðskiptavinum sínum ókeypis lánsbíla meðan skoðun og viðgerð fer fram á bílum þeirra. Þá eru dæmi um það að kaupendur nýrra Toyotabíla neiti að taka við þeim fyrr en búið sé að ganga úr skugga um að bensíngjöfin sé í fullkomnu lagi.
Bensíngjöfin sem um ræðir er í raun mótstöðurofi sem vinnur ekki ósvipað styrkstilli á útvarpstæki. Mótstöðurofinn sendir rafboð til stjórntölvu bílsins um litla eða mikla inngjöf og allt þar í milli eftir því hver staða inngjafarinnar er. Sterk fjöður eða gormur sér síðan um að fetillinn gangi til baka þegar slakað er á bensínfætinum. Við fetilinn er auk þess einskonar dempari til að gera ástigstilfinninguna sem líkasta því sem er í gamaldags blöndungsbílum þar sem beint samband er milli bensínfetilsins og blöndungsins. Það mun vera þessi dempari sem á til að bila. Ef það gerist gengur fetillinn ekki til baka og slær þar með ekki af inngjöfinni.
Það er bandaríski undirframleiðandinn CTS sem framleiðir þennan búnað fyrir Toyota en líka fyrir fleiri bílaframleiðendur í Bandaríkjunum, t.d. Honda og Nissan. Umferðaröryggisstofnunin NHTSA rannsakar nú hvort samskonar bilanir hafi komið fram í Honda og Nissan bílum, en framleiðendur bílanna hafa alfarið neitað því, hingað til að minnsta kosti.