Bensínstöðvum fækkar í Danmörku

Árið 1990 höfðu Danir úr 3.031 bensínstöð að velja þegar taka þurfti eldsneyti á bílinn. 20 árum síðar, árið 2010, voru bensínstöðvarnar orðnar 2.004. Stöðvunum fækkaði hraðast fram til  2005 en hægar síðan þá.

Þetta kemur fram í frétt í Motor, félagsriti systurklúbbs FÍB í Danmörku; FDM. Þar segir að það séu einkum litlar bensínstöðvar í dreifbýli sem týnt hafi tölunni á þessu tímabili. Þær hafi hörfað fyrir miðlægt staðsettum stórum stöðvum.

Enda þótt stöðvunum hafi fækkað jafn mikið og raunin er, verður ekki sagt að hörgull sé beinlínis á bensínstöðvum í Danmörku í samanburði við grannlöndin. Í Danmörku eru um það bil 1.100 bílar að meðaltali á hverja bensínstöð en í Svíþjóð eru þeir 1.472 og í Þýskalandi 2.783. Hlutfallslega flestir bílar á hverja bensínstöð eru í Bretlandi en þar eru 3.213 bílar að meðaltali á hverja bensínstöð.

En eftir því sem stöðvunum hefur farið fækkandi í Danmörku þá hefur sú þróun líka orðið að ómönnuðum sjálfsafgreiðslustöðvum fjölgar en mönnuðum stöðvum fækkar hlutfallslega. Árið 1997 var 71 prósent danskra bensínstöðva (1.808) af alls 2.546 stöðvum í rekstri, mannaðar og 29 prósent (738) voru ómannaðar.

Í fyrra (2010) hafði þetta hlutfall snúist við. Þá voru 65 prósent bensínstöðva (1.303) í rekstri ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar en 35 prósent (701) mannaðar. Ekkert bendir til annars en að hlutfallsleg fjölgun ómannaðra sjálfsafgreiðslustöðva haldi áfram á kostnað mönnuðu stöðvanna. Á árinu 2009 einu voru 19 mannaðar bensínstöðvar lagðar niður í Danmörku en 26 ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar voru gangsettar.