Benz vetnisbílar 2014

Svo virðist sem vetnisknúnir bílar verði fyrr á ferðinni á en áður var ætlað. Daimler, móðurfélag Mercedes Benz hefur tilkynnt að takmörkuð fjöldaframleiðsla á vetnisknúnum bílum hefjist árið 2014, ári fyrr en áður var áætlað. Vetnisbílar þessir sem um ræðir eru í raun rafbílar með efnarafal sem breytir vetni í rafstraum. 

Nú standa yfir tilraunir og þróunarvinna til að fínstilla smáatriðin áður en fjöldaframleiðslan hefst og einn þáttur þess er að byggja 200 tilraunabíla til viðbótar við þá sem fyrir eru og byggja jafnframt 20 nýjar vetnisstöðvar víðsvegar um Þýskaland. Það verður gert í samvinnu Daimlers og fyrirtækis sem nefnist Linde og býr yfir mikilli sérþekkingu í vetnismálum.

Mercedes Benz hefur nýlokið við að aka nokkrum vetnis/rafknúnum B-Benz bílum vegalengd sem svarar til aksturs umhverfis jörðina – 30 þúsund kílómetra. Aksturinn tók 125 daga en tilgangurinn var að sýna fram á rekstraröryggi bílanna og efnarafalstækninnar.  

En þótt tæknileg vandamál þessara bíla séu mörg leyst þá er enn óleystur sá vandi að hanna og koma sjálfri fjöldaframleiðslunni á legg og koma verðinu á bílunum niður í skaplegar upphæðir. Þá eru efnarafalar enn mjög dýrt spaug og ljóst þykir að fyrsta kastið í það minnsta, verði efnarafalsbílarnir mun dýrari en rafbílar með líþíumrafhlöðum – og eru þeir þó ærið dýrir, enn að minnsta kosti.

Þá er enn sá ágalli efnarafalanna ótalinn, en hann er sá að orkutapið í þeim er enn verulegt. Vetnið sjálft er búið til með raforku og er helst til þess horft að framleiða það með vindorku, vatnsfallorku eða með öðrum orðum með því að nýta „viðvarandi“ og sjálfbært endurnýjanlega orkugjafa. Vetnið er síðan sett á geymi í efnarafalsbílunum og efnarafallinn breytir því svo aftur í rafmagn um borð í bílnum. Vegna þess mikla orkutaps í þessu ferli öllu þykir tilgangslaust að framleiða rafmagn til vetnisframleiðslu með því að brenna jarðefnaeldsneyti. Það myndi síður en svo draga úr útblæstri CO2.

Þannig þykir mun vænlegra að framleiða vetnið með rafstraumi frá vindmyllum en málið er bara það að vegna orkutapsins í efnarafalnum þá nýtist rafmagnið miklu ef því er bara hlaðið beint inn á rafgeymana í rafbílum. En þá rekumst við enn á þann þröskuld sem alla tíð hefur verið í vegi fyrir rafbílnum, sem eru takmörk rafgeymanna sjálfra:

Þrátt fyrir margfalt öflugri og jafnframt léttari rafgeyma í seinni tíð þá takmarkast notagildi og samkeppnishæfi rafgeymabílanna mjög af drægi þeirra og endurhleðslutíma. Efnarafalsbílarnir hafa hins vegar þann kost umfram rafgeymabílana að drægi þeirra er svipað og hefðbundinna bensín- og dísilbíla og jafn stuttan tíma tekur að taka vetni eins og taka bensín.