Bertone á Ítalíu hættir

Hið heimþekkta ítalska hönnunar- og bílasmíðafyrirtæki Bertone hefur hætt störfum og lokað og læst öllum dyrum eftir meira en 100 ára starfsemi. Undir það síðasta störfuðu 160 manns hjá Bertone og eru þeir nú án vinnu. Lánardrottnar eru ekki ánægðir með hvernig að lokuninni var staðið og hóta ýmsir þeirra málaferlum til að reyna að endurheimta eitthvað af því sem þeir eiga inni hjá Bertone.

Bertone hefur hannað marga eftirtektarverða bíla um dagana. Þeirra á meðal eru Lamborghini Miura, Lancia Stratos og fyrsti Skódinn eftir að járntjaldið féll - Skoda Favorit. Ennfremur sérbyggði Bertone fjölda bíla fyrir ýmsa framleiðendur, ekki síst blæjubíla og sportbíla af ýmsu tagi. Meðal þeirra voru bílar af tegundunum Fiat, Opel og Volvo. Rekstur Bertone hefur gengið misjafnlega um langt skeið og var við það að fara í gjaldþrot árið 2007 og aftur árið 2011. Í vandræðunum árið 2007 var gjaldþroti forðað með því að selja framleiðsludeildina út úr fyrirtækinu en reka hönnunardeildina áfram. Árið 2011 var hún svo við að fara á hausinn líka en þá var málunum bjargað með því að halda nokkurskonar brunaútsölu og selja alla þá bíla sem fyrirtækið átti, m.a. frumgerðir og safnaraeintök og sérstæða bíla.

Síðustu árin hefur Lilli Bertone stjórnað fyrirtækinu. Hún er ekkja Nuccio Bertone sem stjórnaði því á sjöunda og áttunda áratuginum þegar Bertone var annað fremsta bílahönnunarfyrirtæki á Ítalíu og barðist um fyrsta sætið við Pininfarina. Sá sem varð síðasti aðalhönnuður Bertone er Bandaríkjamaðurinn Michael Robinson. hann gekk út um síðustu áramót og tók með sér flestalla samstarfsmenn sína. Allt gekk þetta fólk þá til liðs við verkfræði- og hönnunarstofuna ED i Torino og er Robinson þessi nú einn af eigendum  ED Design.