Bestu borgarreiðhjólakerfin hjá Frökkum

EuroTest, sem er prófunarstofnun evrópsku bifreiðaeigendafélaganna (FÍB þar á meðal), hefur í fyrsta sinn prófað og metið almannareiðhjól  í 40 evrópskum stórborgum í 18 löndum. Bestu og aðgengilegustu almannahjólakerfin eru í Frakklandi en verst í sjálfu reiðhjólalandinu Hollandi. Annað mikið reiðhjólaland – Danmörk er einungis í meðallagi.

Nú er aðal sumarleyfistíminn framundan og það er sannarlega ekki galin hugmynd að skoða helstu borgir álfunnar á reiðhjóli óháður umferðarhnútum og ofurháum bílastæðagjöldum og áætlunum strætisvagna og lesta. Flestar borgirnar bjóða gestum sínum upp á reiðhjól til afnota og er flota þessara almannahjóla er oftast að finna í sérstökum hjólastæðum í næsta nágrenni við helstu stöðvar almannasamgangna. Þar getur fólk nálgast hjól með því að stinga mynt eða korti í  þar til gerðar raufar og hjólið er þar með laust og tilbúið til notkunar. Að notkun lokinni er hjólinu ýmist skilað á sama stað eða þá í annað samskonar stæði.

Könnunin leiðir í ljós að þessi almannareiðhjólakerfi eru mjög misjöfn. Fjöldi hjóla í boði er mjög misjafn, móttöku-, skila- og greiðslukerfin eru mjög misgóð, upplýsingar eru mjög mis góðar og sjálf hjólin er mjög misjöfn, allt frá ágætum hjólum til mjög slæmra og vart nothæfra. Frakkland er í afgerandi forystu og best þótti almannahjólakerfið í Lyon og næst best í París. Lang flest eru sjálf hjólin í París eða 23.900. Næst flest eru þau í London eða alls 9.200 á 558 stöðum í borginni. Aðrar góðar almannahjólaborgir sem talsvert eru heimsóttar af Íslendingum eru t.d. Brussel í Belgíu, Valencia og Sevilla á Spáni og Torino og Mílanó á Ítalíu og Luxembourg. Ekki jafngóðar eru Kaupmannahöfn og Árósar í Danmörku, Stokkhólmur í Svíþjóð og Osló í Noregi og afleitar þóttu svo hollensku borgirnar Amsterdam, Utrecht og Haag. Sjá könnunina hér.

Franska borgin Lyon er með besta almannahjólakerfið. Þar eru í boði 4.000 hjól á 343 stöðum víðsvegar um borgina allt árið um kring. Til að fá aðgang að hjólunum þarf að skrá sig og fá sérstakt kort, en það kostar ekkert og er mjög auðvelt og aðgengilegt að skrá sig. Eftir það eru manni flestir vegir færir og afgreiðslu- og skilakerfið er sjálfvirkt og skila má hjólinu á hvaða aðra stöð sem er og hvenær sem er. Upplýsingar þar eru á nokkrum tungumálum og allar eru hjólastöðvarnar mjög nærri almannasamgöngumiðstöðvum (strætisvagna- og lestastöðvum).