Betri eða verri ökumenn?

Langflestir karlmenn telja að þeir séu betri ökumenn en eiginkonurnar.  Þetta kemur fram í nýrri breskri rannsókn. Fimmtungur aðspurðra karla töldu að konur þeirra væru svo lélegir ökumenn að þeir gætu aldrei setið rólegir í farþegasætinu í bíl hjá þeim.

 Á límmiða sem algengur er í Bretlandi í afturrúðum bíla stendur að konur séu betri ökumenn en hænsni. Kannski þessi límmiði og boðskapur hans lýsandi fyrir það álit sem ökuhæfni kvenna virðist njóta meðal breskra karla.

Breskt markaðskönnunarfyrirtæki sem heitir One Poll gerði þessa umræddu könnun og spurði 3000 karla um allt Bretland. Langstærstur hluti svarenda taldi sig vera betri í akstursleikninni en konurnar, þriðjungur kvaðst alltaf vera óttasleginn í bíl hjá eiginkonunni og einn af hverjum tíu kvaðst oft þurfa að grípa í stýrið hjá eiginkonunni í akstri til að forða slysi.

10 helstu atriðin sem bresku karlarnir helst finna að aksturslagi eiginkvenna sinna:

1) Einbeitingarskortur

2) Hemlað of seint

3) Óstöðugt ástig á eldsneytisgjöf

4) Ekið of nærri klant- eða miðlínu

5) Of lítið bil milli bíla

6) Hemlað harkalega

7) Fikt í hljómtækjunum

8) Merkjagjöf (stefnuljós) og tillitssemi ábótavant

9) Ekið of hratt miðað við aðstæður

10)Hangs á framúrakstursakrein

 OnePoll varar við því að dregin sé sú ranga ályktun af niðurstöðunum, að konur séu verri ökumenn en karlar. Slysatölfræðin sýni að svo sé alls ekki. Könnunin sé miklu fremur til vitnis um þá meinloku karlanna að þeir séu yfirburðaökumenn. Sú karlagrilla hafi hins vegar enga tengingu við raunveruleikann.

Ekki vitum við til að könnun af þessu tagi hafi verið gerð hérlendis. Í Svíþjóð hafa þær verið gerðar og þar kemur í ljós að karlar keyra meira en konur og ef hjón fara saman á bílnum er það oftast karlinn sem sest undir stýri. Karlarnir  hafa því meiri ökureynslu en nota hana oft, því miður, til þess að aka óæskilega hratt eða taka óþarfa áhættu í umferðinni. Gera má ráð fyrir því að hið sama gildi hér á landi. Í það minnsta er það algeng sjón í því skrifstofuhverfi sem FÍB hefur höfuðstöðvar sínar að sjá þegar karlar koma til vinnu, að konan situr í farþegasætinu að vinnustað karlsins, en flytur sig síðan í ökumannssætið og ekur brott  þegar karlinn hefur stigið út úr bílnnum og inn á sinn vinnustað.