Betri samgöngur sendu sjóðheita kartöflu í fang Alþingis
Þessi heita kartafla er svokölluð „flýti- og umferðargjöld“ sem byrja átti að innheimta á höfuðborgarsvæðinu í janúar 2023. Rukka átti bíleigendur fyrir akstur milli sveitarfélaga og borgarhluta á tilteknum tímum dags og nota tekjurnar til að fjármagna stórtækar samgönguframkvæmdir samgöngusáttmálans.
Árin 2022 og 2023 vörðu Betri samgöngur ohf. (BS) 62 milljónum króna í undirbúning að innheimtu þessara „flýti- og umferðargjalda“ á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að ekki lægi fyrir samþykki Alþingis um vegtolla á Höfuðborgarsvæðinu voru settar 62 milljónir króna í verkefnið.
Þegar þessir vegtollar voru fyrst kynntir til sögunnar árið 2019 mættu þeir mikilli andstöðu, þar á meðal frá FÍB sem sagði að réttnefnið væri tafagjöld. Þegar umræða hófst síðan í stjórnkerfinu árið 2023 um heildarendurskoðun gjaldtöku af samgöngum á landsvísu, þá biðu Betri samgöngur ekki boðanna og losuðu sig undan frekari aðkomu að tollheimtu á höfuðborgarsvæðinu. Hin heita kartafla var send til ríkisins.
Nú er ljóst að þessi innheimtuleið verður farin í fyrsta lagi eftir fimm ár og jafnvel aldrei.
Eftir stendur spurningin um hvort 62 milljón króna undirbúningsvinna Betri samgangna mun koma að einhverju gagni þegar þar að kemur. Margt getur breyst á fimm árum.
Boltinn er hjá Alþingi
Alþingi ákveður endanlega hvort „flýti- og umferðargjöld“ verða innheimt á höfuðborgarsvæðinu – eða farið verði aðrar leiðir. Í uppfærðum Samgöngusáttmála er gert ráð fyrir að „flýti- og umferðargjöld“, eða aðrar fjármögnunarleiðir ríkisins, skili alls um 143 milljörðum króna frá og með árinu 2030. Sú gjaldtaka er því ekki í kortunum næstu 5 árin. Í raun liggur því enn ekkert fyrir um hvernig ríkið og sveitarfélögin hyggjast haga gjaldtöku af bílum og umferð með öðru en kílómetragjöldum.
Þar sem tafagjöldin hafa verið lögð á ís, þá þurfa Betri samgöngur ohf. fjármagn annars staðar frá til að ráðast í fjölbreyttar samgönguframkvæmdir. Það verður leyst með framlagi frá ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og einnig hefur BS heimild til að taka lán. Frestun gjaldtökunnar mun því leiða af sér vaxtakostnað upp á hundruð milljónir eða milljarða króna.
Hvað gæti reikningurinn orðið hár?
FÍB hefur reiknað út að ef Alþingi ákveður að innheimta „flýti- og umferðargjöld“ af bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu sem sérstaka viðbót við almennt kílómetragjald, þá yrði þetta aukagjald per kílómetra um 3 krónur. Hinn sértæki höfuðborgarskattur yrði því 45 þúsund krónur á bíl sem ekið er 15 þúsund kílómetra á ári. Það kæmi til viðbótar hinu almenna kílómetragjaldi sem fyrirhugað er að verði 6,70 krónur, eða 100 þúsund krónur á ári miðað við þennan akstur. Samtals gerir þetta um 145 þúsund krónur á ári í kílómetragjöld.