Betri upplýsingagjöf

Danska umferðarstofan eða Trafikstyrelsen, eins og stofnunin heitir, hefur opnað almenningi Netaðgang að skoðunarskýrslum skoðunarstöðva um bíla.  

Þar geta t.d. þeir sem eru að hugsa um kaup á tilteknum bílum, slegið inn númeri bílsins eða framleiðslunúmeri. Þá koma upp krækjur inn á allar þær öryggisskoðanir sem bíllinn hefur undirgengist og hægt að skoða hverja skoðunarskýrslu fyrir sig og sjá hvenær og hvar bíllinn var skoðaður og hvað var gerð athugasemd við og hver kílómetrastaðan var. Þannig getur fólk á einfaldan og auðveldan hátt fengið upplýsingar um bíla og að nokkru gert sér grein fyrir sögu þeirra. Slóðin er www.trafikstyrelsen.dk/synsrapport.

Henrik Dam Kristensesn samgönguráðherra Dana segir við danska fjölmiðla að framtak dönsku umferðarstofunnar sé hið besta og til þess fallið að auka gegnsæi og auðvelda neytendum kaup á notuðum bílum. Nú geti maður sem neytandi staðið á bílasöluplaninu og kallað fram í farsímann eða iPad-inn sinn upplýsingar um bílana sem þar standa. Þetta muni því bæta hag neytenda og stuðla að betra öryggi þeirra í bílaviðskiptum.

Spyrja má í framhaldinu hvort sú ríkisstjórn Íslanads sem nú situr og vill kenna sig við norræna velferð hyggist fara að dæmi Dana í þessu efni og opna þegnum sínum aðgang að skoðunarskýrslum bílanna á Íslandi? Þessar upplýsingar eru nefnilega kyrfilega lokaðar af hérlendis. Einungis þeir sem kaupa sér áskrift að bifreiðaskrá hjá einkareknu þjónustufyrirtæki geta flett upp þessum upplýsingum sem nú standa öllum dönskum neytendum til boða.  

http://www.fib.is/myndir/Soegeresultater.jpg