Betur má ef duga skal!

Í morgun lækkaði Atlantsolía bensínverð og önnur olíufélög fylgdu síðan fordæmi Atlantsolíu eitt af öðru. Verð á bensínlítranum er nú yfirleitt um 245 krónur. Þegar það var hæst í marsmánuði var það 268 krónur. Bensínið hefur því lækkað um 23 krónur lítrinn eða um 9% síðan þá.

Þessar lækkanir má rekja til þess að heimsmarkaðsverð hefur farið lækkandi auk þess sem gengi krónunnar hefur styrkst gagnvart dollar, sem er gjaldmiðill olíuviðskipta í heiminum. Þessi jákvæða þróun er reyndar með þeim ágætum að hiklaust má telja að svigrúm sé til um fjögurra króna lækkunar á lítra til viðbótar.

Olíufélögin hafa í tímans rás oft verið gagnrýnd fyrir að vera fljót til að hækka eldsneytið þegar verð- og gengisþróun hefur gefið tilefni til, en að sama skapi sein til að lækka þegar þróunin hefur verið í þá átt. Að mati FÍB er nú upplagt tækifæri fyrir þau nú að reka af sér þetta slyðruorð og lækka verðið enn frekar á næstu dögum.

Verð á bifreiðaeldsneyti hér á landi er mjög hátt hér á landi sé miðað við verðið sem hlutfall af tekjum almennings í landinu. Frá þeim sjónarhóli séð hefur eldsneytið sjaldan, ef nokkru sinni verið jafn dýrt og það hefur verið það sem af er árinu. Skattheimta ríkisins ræður þar mjög miklu en skattar nema hátt í helmingi þess verðs sem eldsneytið kostar neytendur á bensínstöðvunum.