Hjólafólk yrði að geta treyst vegum landsins betur

Sniglar – Bifhjólasamtök lýðveldisins komu saman til til fjölmenns samstöðufundar við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni eftir hádegi í dag. Efnt var til fundarins vegna banaslyss á Kjalarnesi sl sunnudag þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls biðu bana í árekstri við húsbíl sem rakið er til hálku sem myndaðist á nýlögðu malbiki.

Jokka G. Birnu­dótt­ir, gjald­keri Snigl­anna, las upp yf­ir­lýs­ingu fyr­ir hönd bif­hjóla­fólks á fundinum og í kjölfarið var mínútuþögn. Í yfirlýsingunni segir m.a. að þess sé krafist að hjólafólk yrði að geta treyst vegum landsins betur.

„Það er sorg í hjört­um hjóla­fólks í dag. Hörmu­leg­ur at­b­urður hef­ur orðið til þess að öll sem eitt höf­um við risið upp og segj­um öll það sama; við erum búin að fá nóg.

Hver ein­asta mann­eskja sem hef­ur notað mótor­hjól get­ur sagt sögu af hálum veg­um, lausa­möl ofan á mal­biki, ein­breiðum brúm, hvass­ar brún­ir við rista­hlið, sagt okk­ur sög­ur þar sem viðkom­andi hef­ur nán­ast dottið, eða dottið og hlotið skaða af.

Í mörg ár hef­ur verið bent á þetta, kvartað und­an þessu, við ráðamenn þjóðar­inn­ar, við Vega­gerðina, við verk­taka, en upp­lif­un okk­ar er sú að það er ekki hlustað á okk­ur,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.