Bílaeldsneytið upp eftir áramótin

Eldsneytisverð hækkar eftir áramótin þegar við bætast nýjar álögur ríkisins sem valda 4,52 kr. hækkun á bensínlítrann og 4,47 kr hækkunar á dísilolíulítrann. Þessar álögur eru hækkað bensín- og olíugjald og hækkaður kolefnisskattur. Ekki skal þó reikna með að hækkunin slái strax inn á nýársdagsmorguninn því að breytingin á ekki að hafa áhrif á þær eldsneytisbirgðir sem fyrir eru í landinu heldur þær sem koma nýjar inn í landið eftir áramótin þegar lög um hinar nýju álögur hafa tekið gildi.

 

http://www.fib.is/myndir/Gjaldatafla.jpg
Hér má lesa hverjar eru upphæðir nýju eldsneytisskattanna. Þeir mega og
eiga ekki að leggjast á eldsneyti sem fyrir er í landinu við gildistöku laganna
heldur á nýtt, sem flutt verður til landsins eftir gildistöku laganna.

Þann 28. maí 2009 tóku gildi svipuð lög og nú um hækkaðvörugjald á eldsneyti. Þá voru olíufélögin ekki sein á sér og hækkuðu samstundis útsöluverðið. FÍB gagnrýndi félögin fyrir að hlunnfara viðskiptavini sína með því að leggja nýju skattana strax ofan á þær birgðir sem fyrir voru í tönkunum. Ríkistollstjóri staðfesti svo í samtali við Morgunblaðið þann 4. júní 2009 að skilningur FÍB á þessu máli væri réttur: Nýja vörugjaldið og hærri VSK af þess völdum ætti eingöngu að leggjast á nýjar birgðir, en ekki eldra eldsneyti.

Hið sama gildir því einnig nú. Hækkunin á einungis að leggjast á innflutt bensín og dísilolíu sem flutt verður til landsins eftir að lög um nýtt vörugjald og kolefnisgjald hafa tekið gildi þann 1. janúar nk. Neytendum skal því bent á að fylgjast vel með hækkunum sem kunna að verða strax upp úr áramótunum. Staðan er því miður mjög viðkvæm nú þar sem heimsmarkaðsverð á olíu og olíuafurðum er á uppleið og því líklegt að olíufélögin muni hækka verðið. Hugsanlegar hækkanir verða hins vegar enganveginn skýrðar með skattahækkununum nú og ekki fyrr en er líða tekur á janúarmánuð þegar nýjar eldsneytisbirgðir taka að berast til landsins.

Í þessu samhengi má einnig minna á að olíufélögin hækkuðu eldsneytisverðið á Þorláksmessu.

Hin herta skattheimta á eldsneytið er, þótt slæm sé, ekki alveg eins slæm og hugur ríkisstjórnarinnar stóð til fyrir ekki svo löngu. Þetta má lesa úr þessari frétt okkar frá 14. júlí sl. sumar.