Bílaframleiðsla gæti minnkað um 30%

Afleiðingar hinna hræðilegu náttúruhamfara í Japan hafa víðtæk áhrif á bílaframleiðslu alls heimsins. Mjög mikil íhlutaframleiðsla  fer fram á því svæði sem verst varð úti og liggur hún niðri að verulegu leyti. Ef ekki tekst að koma henni vel af stað á ný innan skamms má búast við að bílaframleiðsla í heiminum, ekki bara í Japan heldur líka í Evrópu og N. Ameríku og víðar dragist saman um 30 prósent og jafnvel 50.

Þetta kemur fram í nýrri dökkri skýrslu markaðsrannsóknafyrirtækis sem heitir IHS Automotive. Þar segir að komist ekki japönsku íhlutaframleiðendurnir á fulla ferð á ný fljótlega fari alvarlegs íhlutaskorts að gæta í bílaverksmiðjum um allan heim.

Þeir íhlutir sem um er að ræða eru ekki síst gírkassar og drif og hverskonar raf- og tölvubúnaður. Ekki er líklegt að framleiðsla Japana geti komist að fullu á skrið á næstunni og finni bílaframleiðendur ekki í skyndi aðra framleiðendur sem tekið geta við, þá stefnir í allt að 40 prósenta samdrátt í bílaframleiðsu heimsins fljótlega.

Skorts á íhlutum utan Japans er ekki tekið að gæta enn að ráði. Það er vegna þess að hlutirnir eru fluttir sjóleiðis frá Japan til Evrópu og Ameríku og afgreiðslu- og siglingatími er tvær til sjö vikur. Íhlutaskorts fer því óhjákvæmilega að gæta utan Japans fljótlega úr þessu.

Toyota hefur tekist að koma stórum hluta verksmiðja sinna í Japan í gang á ný og eftir helgina hefst framleiðsla aftur á tvinnbílunum Prius og Lexus CT 200h. Báðir bílarnir eru einvörðungu framleiddir í Japan. Toyota rekur 12 verksmiðjur í Japan af alls 65.

Það eru ekki bara skortur á stórum íhlutum eins og gírkössum og drifum sem geta sett bílaframleiðsluna úr skorðum. Súrefnisskynjarar í loftrásum véla eru ekki stórir um sig og á þeim getur orðið alvarlegur skortur fljótlega: Hitatchi Automotive í Japan framleiðir súrefnisskynjara fyrir um 60 prósent bílaframleiðslu heimsins og verksmiðjan í Japan sem framleiðir þá varð illa úti í jarðskjálftunum. Þar eru sannarlega blikur á lofti.