Bílakaupendur í USA ánægðastir með viðmótið hjá Jaguar

http://www.fib.is/myndir/Jaguar_s.jpg
Besta sölufólkið í USA er hjá Jaguar að mati kaupenda.

Í nýrri könnun J.D. Power meðal bandarískra bílaeigenda kemur í ljós að eigendur Jaguar bíla eru ánægðastir með viðmót söluaðila bíla sinna af öllum. Minnst ánægðir eru bandarískir eigendur Mitsubishi.

Viðmót söluaðila nýrra bíla á Íslandi er yfirleitt með ágætum, en þó heyrast dæmi um hið gagnstæða. Félagsmaður FÍB sem á stóra fjölskyldu og býr við ágæt efni sagði okkur hér á fréttavefnum sögu af því þegar hann kom í sýningarsal bílaumboðs til að skoða stóran og alldýran bíl. Enginn sölumaður kom til að sinna honum. Hann skoðaði því bílinn sjálfur og sneri sér síðan að sölumanni sem sat við skrifborð og spurði um verð og greiðslukjör. Sölumaðurinn stóð ekki upp úr sæti sínu, en mældi félagsmanninn út með augunum um stund og þótti greinilega lítið koma til klæðaburðar hans því að þegar hann loks svaraði sagði hann. –Þetta er dýr bíll, heldurðu að þú eigir efni á honum? Okkar maður gekk rakleitt á dyr, fór í annað umboð og keypti svipaðan bíl – og staðgreiddi.

J.D Power könnunin nefnist Sales Satisfaction Index, eða SSI og náði til fólks sem keypt hafði nýja bíla á árinu. Spurt var um hvort bíða þurfti eftir afgreiðslu? hversu fljótt kaupin gengu í gegn? var einhver afgreiðslufrestur? hvernig kom sölumaðurinn fyrir? Hvernig var bílaumboðið staðsett? Og hvernig var verðið? 42 þúsund manns tóku þátt í könnuninni og hvorki meira né minna en þriðjungur kvaðst hafa hætt við kaup og gengið út frá þeim fyrirtækjum sem fyrst var leitað til, vegna þess hve illa var tekið á móti þeim.

Að meðaltali tekur það bandaríska bílakaupendur þrjá tíma að ganga frá kaupum á nýjum bíl, en að mati J.D. Power er of stór hluti þess tíma biðtími. Þann tíma mætt nota til að kenna á bílinn og eliðbeina um notkun hans. Um einn þriðji hluti bílaviðskipta fer fram á frídögum eða helgidögum og þá taka viðskiptin mun lengri tíma en á virkum dögum. Hvar einstök bílamerki svo hafna í þessari könnun sést á meðfylgjandi töflu.
http://www.fib.is/myndir/JDPower.jpg