Bilanatíðnitölfræði ADAC 2010

ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur gefið út árlega tölfræði sína um bílanir í bílum. Tölfræðin er byggð á útköllum vegaaðstoðar félagsins, Gulu englanna,  og fimmta árið í röð eru það þýskir bílar sem sjaldnast bila. Innfluttir bílar til Þýskalands standa sig verr en þeir þýsku, með undantekningu þó, sem er Citroën sem komst í fyrsta sæti í tveimur stærðarflokkum. Sú bíltegund sem best stendur sig á heildina litið er Mercedes Benz.

 Í rúmlega 30 ár, eða frá 1978 hefur ADAC unnið úr upplýsingum frá vegaþjnónustufólki sínu, Gulu englunum eins og þeir kallast í daglegu tali. Þegar bílar stöðvast vegna bilana úti á vegum hringja félagsmenn ADAC í Gulu englana sem koma á staðinn og koma bílnum í gang á ný, eða flytja hann á verkstæði ef ekki tekst að gera við hann á staðnum. Í fyrra sinntu Gulu englarnir 3,9 milljón útköllum, eða einu útkalli áttunda hverja sekíundu. Tvær milljónir útkallanna liggja til grundvallar þeirri bilanatölfræði sem nú birtist og upplýsingarnar eru frá 1.700 vegaþjónustubílum ADAC. Alls tókst Gulu englunum að koma aftur í gang um 84 prósesntum þeirra bíla sem stöðvast höfðu á vegum úti og þeir höfðu vewrið kallaðir út til að sinna.

 Skemmst er frá því að segja að ADAC hefur komið sér upp einum albesta tölfræðigagnagrunni veraldar um bíla, bilanatíðni þeirra og rekstraröryggi. Úr honum má lesa hvaða bílategundir og -gerðir það eru sem oftast stöðvast á vegum úti vegna bilana. Út úr þessum gögnum vinnur ADAC svo upplýsingar um bílana sem minnst bila og þá sem mest bila, hvað það er sem bilar o.s.frv. Þessar upplýsingar eru því eins marktækar um gæði og rekstraröryggi bíla sem hugsast má, ekki bara fyrir Þjóðverja heldur líka eigendur þeirra bílategunda og gerða sem við sögu koma, hvar sem er í heiminum og ekki síst hér á landi. 

 Gulu Englarnir halda nákvæmar dagbækur þar sem öll viðvik eru skráð. Tölfræðingar ADAC vinna síðan úr þessum gögnum og þegar búið er að sía frá öll atvikin þar sem bílar stöðvuðust vegna eldsneytisleysis, sprunginna hjólbarða og innilæstra lykla verður til tölfræðigrunnur yfir hvað það er sem bilar og hvernig. Úr þessum grunni verður svo til listi yfir einstakar tegundir og gerðir bíla og hversu traustir og áreiðanlegir þeir eru. Jafnframt gefur gagnagrunnurinn skýra mynd af því í hvaða hlutum og kerfum bílsins bilanir verða helst, hversvegna þeir verða óökufærir og hvað sé til ráða. Þessar upplýsingar eru því ómetanlegar fyrir neytendur í bílakaupahugleiðingum og einnig og ekki síður fyrir bílaframleiðendur sem þá geta notfært sér upplýsingarnar til að byggja betri og áreiðanlegri bíla.

Bílunum er skipt upp í átta flokka og ekki er unnið úr grunnupplýsingum um aðra bíla en þá sem selst hafa árlega í minnst 10 þúsund eintökum í Þýskalandi. Bílarnir sem komast inn á lista eru allir eins til sex ára gamlir og eru eða hafa verið framleiddir án meiriháttar breytinga um þriggja ára skeið.

 Að þessu sinni, fimmta árið í röð , eru það þýskir bílar sem raða sér í efstu sætin í öllum flokkunum átta. Þýsku bílarnir eru allsstaðar í efsta sæti nema í flokki minni smábíla og lítilla fjölnotabíla. Í minni smábílaflokki trónir efstur Citroen C1 og í flokki lítilla fjölnotabíla er Citroen Xsara Picasso/C4 Picasso efstur. Næstir á eftior Picasso koma svo Fiat Panda og Seat Altea.

Sú bíltegund sem best kemur út í öllum flokkum í heild er Mercedes Benz. Benz bílar eru í efstu sætum í þremur flokkum: B-Benzinn er efstur í minni milliflokki, C-Benzinn í millistærðarflokknum og SLK í sportbílaflokknum. Í þeim flokki er reyndar annar Benzi; Benz CLK í öðru sæti. Að öðru leyti segja listarnir hér að neðan sína sögu.

 Lang algengasta orsök þess að bílar stöðvast er bilaður eða ónýtur rafgeymir eða bilanir í rafkerfi. Miðað við könnun síðasta árs dró hins vegar mjög úr því að bílar stöðvuðust vegna sprunginna eða lélegra hjólbarða. Ennfremur fækkaði tilfellum þar sem einangrun á rafköplum eða slöngur höfðu bilað úr 15.282 í 13.696. Það getur bent til bætts frágangs á rafleiðslum og slöngum.

 Oftast rafmagnið

 Rafmagnsbilanir eru lang algengasta orsök þess að bílar stöðvast og beðið er um aðstoð. Meginorsakir þessara truflana geta verið margvíslegar. Algengusta einkennið er að rafgeymir tæmist. Það getur gerst t.d. vegna þess að rafall er bilaður eða rafalsreimar eru lélegar, slakar eða hreinlega slitnar, eða bara ef bíllinn er notaður til stuttra vegalengda og aldrei næst að fullhlaða hann, ekki síst í vetrarkuldum. Þá hafa sjálfir geymarnir sinn líftíma. Þeir geta enst áratug ef allt annað helst í lagi í bílnum en algeng ending er skemmri, stundum mun skemmri.

Næst algengasta orsök þess að bílar stöðvast er vegna bilana í kveikjukerfum bílanna. Orsakarinnar getur t.d. verið að leita í skemmdum rafleiðslum og útleiðslu, truflana í þjófavarnarkerfum og tölvum bílanna eða hreinlega í því að kertin eru orðin ónýt.

Þriðja algengasta ástæða þess að bílar stöðvast er bilun í eldsneytisinnsprautunarkerfi.  Stundum er ástæðunnar að leita í tölvu bílsins eða skynjurum, bæði loftflæði og útblástursskynjurum. Stundum bilar fæðidælan sem dælir eldsneytinu upp úr tanknum inn á innsprautunarkerfið, stundum fara slöngur í sundur eða hreinlega að loftsían ef einfaldlega orðin full af óhreinindum og stífluð.

Hvað bilar helst?

http://www.fib.is/myndir/Hvadklikkar.jpg
http://www.fib.is/myndir/ADACgraf1.jpg
http://www.fib.is/myndir/ADACgraf2.jpg
http://www.fib.is/myndir/ADACgraf3.jpg