Bílanaust kemur aftur

Frá næstu áramótum fá bílavarahluta- og -aukahlutaverslanir N1 sitt gamla nafn, Bílanaust, á ný. Rekstur þeirra verður skilinn frá rekstri N1 færður í dótturfélag, sem rekið verður sem sjálfstæð eining frá og með áramótum. „Tekið verður upp að nýju hið gamalgróna vörumerki Bílanaust og munu verslanir hins nýja félags bera það nafn, sem bílaáhugamenn þekkja frá fyrri tíð. Starfsfólk N1, sem unnið hefur í þessum sérverslunum, verður starfsfólk Bílanausts þegar breytingin tekur formlega gildi um áramót. Framkvæmdastjóri Bílanausts verður Árni Stefánsson, sem hefur veitt vöru- og rekstrarsviði N1 forstöðu,“ segir í frétt um málið á heimasíðu N1.

Bílavöruverslunin að Bíldshöfða 9 verður áfram á sama stað en frá áramótum undir merki Bílanausts. Aðrar bílavöruverslanir N1 sem einnig fá nafn Bílanausts eru í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík,  Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. 


Árni Stefánsson segir í fréttinni á heimasíðu N1 að vörumerkið Bílanaust sé þekkt fyrir gæði og gott verð, gott starfsfsólk og fjölda góðra vörumerkja.  „Við munum leggja okkur fram um að þjóna bíleigendum og fyrirtækjamarkaði með snerpu, hagkvæmum lausnum og vandaðri þjónustu.  Félagið mun byggja á traustum grunni og kynna ýmsar nýjungar í vöruúrvali og þjónustu á nýju ári.”