Bílar heimsins nálgast milljarð

Bílarnir í veröldinni nálgast nú óðum milljarðinn, en búist er við að þeir verði milljarður áður en árið er liðið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarískrar stofnunar sem nefnist Worldwatch Institute.

Þeir sem gerðu rannsóknina telja að fólksbílar í heiminum hafi verið 691 milljón talsins við upphaf þessa árs. En séu allir nytjabílar eins og sendi-, vöru- og fólksflutningabílar taldir með hafi fjöldinn verið 979 milljónir. Í árslok 2010 hafi samanlagður bílafjöldi verið 949 milljónir. Það er ekki síst út frá þeim vexti sem orðið hefur síðan, sem og þeirri staðreynd að ekkert hefur dregið úr vextinum í Kína og víðar í Asíu, sem menn draga þá ályktun að bílafjöldinn nái milljarðinum áður en árið er úti.

Árið 2010 voru byggðar 74,4 milljónir nýrra fólksbíla í bílaverksmiðjum heimsins og árið 2011 76,8 milljónir bíla. Worldwatch áætlar að árið 2012 verði metár í bílaframleiðslunni með yfir 80 milljónir framleiddra bíla. Þessi vöxtur milli ára hefur einkum farið í það að metta kínverska bílamarkaðinn.

Þótt rafbílar séu mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og meðal fólks þá eru þeir afar lítill hluti þessa mikla vaxtar, en það gæti breyst: Kínversk stjórnvöld hafa lýst þeim ásetningi sínum að fjölga rafbílum verulega í umferðinni, eða í 5 milljón bíla fyrir 2020. Það gæti þýtt að hátt í 40 prósent allra rafbíla í heiminum verði þar með í umferð í Kína árið 2020.

Fjölgun rafbíla er mjög tengd notagildi þeirra í samanburði við hefðbundna bíla, það er að segja drægi þeirra og hleðslutíma geymanna. Framfarir virðast nú í sjónmáli í þessum efnum en þrátt fyrir það eru margir varfærnari í rafbílaspám en Kínversk stjórnvöld eru. Höfundur skýrslu Worldwatch Institute telur t.d. kínverski rafbílaflotinn  fari varla yfir 3,5 milljónir bíla 2020.

Samkvæmt skýrslunni eru Bandaríkjamenn mesta bílaþjóðin og þeir keyra bíla sína mest allra. Íbúar OECD landanna óku samtals 10,3 milljarða svokallaðra farþegakílómetra í fyrra. Þar af óku Bandaríkjamenn 40 prósent þrátt fyrir að vera einungis 25 prósent af samanlagðri íbúatölu OECD ríkjanna.