Bílar sem „drukkna“

Síðustu helgina í ágúst skall á mikið steypiregn sem helltist yfir Aarhusborg á Jótlandi og næsta nágrenni. Á tveimur klst. varð úrkoman jöfn meðalregni heils mánaðar. Frárennsliskerfin höfðu hvergi nærri undan og niðurföll á lágt liggjandi svæðum gusu vatni og jafnvel skolpi og bílar fóru á kaf eins og sjá má á myndinni sem tekin var nálægt E45 hraðbrautinni. En hvað verður síðan um bíla sem fara svona á kaf í vatn og drukkna“? Verða þeir einhverntíman nothæfir aftur? Svarið er nei.

Allmörg dæmi eru um það að flóðabílar sem erlend tryggingafélög hafa dæmt ónýta, hafa verið fluttir til Íslands og seldir. Flestir þessir bílar hafa síðan verið eigendum sínum til vandræða og bilað mikið og oft, ekki síst hafa rafkerfisbilanir af öllu tagi verið tíðar.

Verst þola bílar að lenda í sjó. Saltvatn eyðileggur mjög fljótt þá hluta rafkerfisins sem það kemst í snertingu við. Hafi bíll farið á kaf í saltvatn er nánast alveg víst að hann er ónýtur og ekki til annars nýtur en til eyðingar.

Hafi bíll lent í ferskvatni er stundum hægt að bjarga honum og gera nothæfan að einhverju leyti, hafi hann á annað borð ekki farið á bólakaf og búið hafi verið að loka kveikilásnum (svissa af honum) áður en vatnið náði að flæða um hann. Stundum er hægt að þurrka bílinn og tölvurnar í honum og ná öllu vatni af sem hugsanlega hefur náð að komast inn í vél, drif og gírkassa. En þótt allt þetta takist vel, eru samt miklar líkur á að rafkerfisbilanir verði sífellt að koma upp þaðan í frá.

Hafi svo bíll í þriðja lagi lent í hrærigraut klóaks og ferskvatns má segja að afleiðingarnar séu þær sömu og eftir saltvatnið – að bíllinn sé ónýtur eftir. Klóak er mjög heilsuspillandi enda uppfullt af saur, saurgerlum, allskyns öðrum bakteríum og heilsuvá. Og þótt takist að skola bílinn vel út og þurrka hann síðan er líklegt að fýlan verði viðloðandi í honum það sem eftir er. Segja má því að bíll sem lent hefur í klóakmenguðu vatni sé ónýtur. Honum verður alls ekki bjargað.