Bílar Svíakóngs

Carl XVI Gustaf  Svíakonungur er bílaáhugamaður og í hinum konunglega bílskúr hans við konungshöllina í Stokkhólmi er fjöldi allskonar bíla og er verðmæti flotans talið í tugum milljóna sænskra króna.

Nokkur hluti bílanna er ekki á númerum og sænska dagblaðið Expressen segir að það sé vegna þess að kóngurinn sé sparsamur og vilji ekki vera að borga skatta og tryggingar af bílum sem hann ekki notar hversdags. Sjá nokkra þessara bíla hér.

Bílskúr konungs er í gömlu hesthúsi og  sá sem þar stjórnar í umboði konungs segir við Expressen að Carl Gustaf sé í stöðugu sambandi við sig um það hvaða bíla eigi að nota í þetta og hitt skiptið og hverjir eigi að vera skráðir og ökuhæfir hverju sinni

Meðal þeirra bíla sem ekki eru á númerum eru opinn Pontiac Tempest frá 1966, rauður að lit. Aðrir sem ekki eru í daglegri notkun og á númerum eru De Tomaso Pantera frá 1971, Porsche 911 frá 1987 og annar frá 1973. Þá má einnig nefna Ford Mustang Shelby frá 1966, AMC Cobra frá 1966 og Volvo PV60 frá 1946, fæðingarári konungs.

Af þeim bílum sem eru á númerum og í daglegri notkun eru bílar frá Volvo, Saab. Þá á kóngur einn Mercedes 500. Ennfremur eru í bílskúrnum tveir rafbílar sem notaðir eru til að skjótast milli húsa í Stokkhólmsborg.