Bílarisar í bandalag um tvinnbíla

http://www.fib.is/myndir/Durangohybrid-1.jpg
Dodge Durango - tvinnbíll frá 2008.

Stærstu bílaframleiðslufyrirtækin veðja grimmt á tvinnbíla um þessar mundir og fara þar að dæmi Toyota sem hvað lengsta reynslu hefur af slíkum bílum og getur státað af hvað mestri kunnáttu í smíði þeirra.

Það er ekki síst bandarísk löggjöf um mengun frá bílum sem er hvati þessa, en kostir tvinnbíla (bíla með bæði bensín- og rafmótor) eru ekki síst fólgnir í því að þeir endurnýta hemlunarorkuna og breyta í rafstraum sem svo nýtist aftur til að knýja bílinn áfram. Þessir kostir nýtast augljóslega best í borgarumferð þar sem stöðugt er verið að taka af stað, hemla og taka af stað á ný. Við þær aðstæður verður bensíneyðsla tvinnbíla verulega minni en samskonar bíla heð hefðbundnum vélarbúnaði. Með því að geta boðið Bandaríkjamarkaði – stærsta og ábatasamasta bílamarkaði heims- tvinnbíla, tryggja framleiðendur sér betri markaðsstöðu.

Toyota hefur allt frá því að tvinnbíllinn Prius kom fyrst á markað haft yfirburðastöðu í þessum efnum á Bandaríkjamarkaði en nú brýna aðrir framleiðendur klær sínar. Um það vitnar nýjasta bandalag keppinautanna. Þessu bandalagi er ætlað að þróa tvinntækni fyrir bíla þeirra. Fyrirtækin þrjú hafa eyrnamerkt jafnvirði 60 milljarða ísl. króna til verkefnisins og ráðið yfir 500 vísindamenn og verkfræðinga sem eiga að galdra úr höttum sínum nýja og betri tvinnbíla.

Svíar ætla sér líka stóra hluti í tvinntækninni því að Göran Persson forsætisráðherra landsins hefur átt fundi með Bill Ford yngri, arftaka Ford-bílaveldisins og rætt við hann um sænskframleidda umhverfisvæna bíla. –Ríkisstjórninni er mjög umhugað um að þróaður verði sannur „grænn bíll“ í Svíþjóð,- sagði forsætisráðherrann við dagblaðið Dagens Næringsliv.
http://www.fib.is/myndir/Durango-hybrid2.jpg
DaimlerChrysler hefur áður boðað tvinnútgáfu af Dodge Durango jeppanum sem koma á á markað árið 2008. GM hefur unnið að því sama og hefur sagst verða aðeins sneggri til en DaimlerChrysler og koma með tvinnjeppa strax á næsta ári.