Bílaryðvörn úr sauðaull

Eins og margir þekkja sem umgengist hafa sauðfé, er ullin mjög fiturík. Meðan hún er enn á rollunum er í henni mikið af olíu sem kallast lanolin og ver sauðféð gegn því að blotna inn að skinni í votviðrum og snjóbyljum. Mikið af lanolin fellur til í ullarvinnslu og úr því hafa lengi verið framleidd ýmiskonar snyrtikrem og græðandi smyrsl. En nú síðast hafa snjallir frumkvöðlar þróað ryðvarnarefni fyrir bíla úr lanolinolíu og kalla það Prolan.

Ekki er vitað til að á Íslandi séu bílar ryðvarðir með Prolan en í Danmörku og Svíþjóð hafa allmargar bílaryðvarnarstöðvar hætt að nota þau olíu- og vaxefni sem til þessa hafa þótt duga best gegn ryðtæringunni og nota nú eingöngu Prolan efni sem unnin eru úr ullarfitunni. Jimmy nokkur Sögaard sem rekur ryðvarnarstöð á Jótlandi segir að auk þess að ryðverja mjög vel fari Prolan mun betur með hann og starfsmenn hans en gömlu olíu- og vaxefnin. Höfuðverkurinn sem fylgdi notkun gömlu efnanna sé alveg horfinn.

Hann segir að viðskiptavinir hans taki því fagnandi að fá bíla sína ryðvarða með þessu lífræna efni enda þótt það sé nokkru dýrara en gömlu efnin eins og Tectyl og Dinitrol o.fl. Þá hafi reynslan hingað til sýnt að það ver bílana ekkert síður en gömlu olíu- og vaxefnin. Prolan stöðvi frekari ryðmyndun þar sem hún er byrjuð. Það loði mjög vel við járnið og þegar það þorni myndi það húð sem er það sterk að ekki er nauðsynlegt að endurnýja bílaryðvörnina nema á fjögurra ára fresti til að halda bílnum ryðlausum.

Prolan efnin fást í ýmsum útgáfum og þykktum eftir því hvar og hvernig á að nota þau.Þannig er til Prolan koppa- og smurfeiti auk ryðvarnarolíunnar sem sprautað er inn í holrúm í burðarvirki bíla, á undirvagna o.s.frv. Efnin eru sögð algerlega lífræn. Í þeim eru hvorki klór- né sílikonsambönd sem geta verið skaðleg fyrir gúmmífóðringar og einangrun á rafleiðslum. Það er því sagt mjög heppilegt til að vatnsverja rafleiðslur og kveikiþræði í bílum.