Bílasafn Saab á uppboði

Uppgjör þrotabús Saab bílaverksmiðjunnar í Trollhättan í Svíþjóð stendur nú sem hæst og á föstudag rennur út frestur til að skila inn tilboðum í annaðhvort alla 123 bílana í safninu eða allt safnið. Þá kemur í ljós hvað fæst fyrir bílana og hvort safnið verður selt í heilu lagi eða bílarnir dreifist út um tvist og bast.

Allir bílarnir í safninu eru sérstakir á einhvern hátt og sá verðmætasti er talinn vera frum-Saabinn frá árinu 1946. Bílarnir eru annars af flestöllum þeim gerðum sem framleiddir voru frá upphafi til endalokanna. Fyrstu bílarnir voru með þriggja strokka tvígengisvélum og eru þeir vitanlega talsvert fyrirferðarmiklir. Þá eru í safninu eintök af fyrstu bílunum með fjórgengisvélar, fyrstu Saab 99 bílarnir og hinum sígildu 900 bílum. Þá eru eintök af ýmsum bílum sem ýmist voru aldrei byggðir í stórum upplögum og frumgerðir bíla sem aldrei komust í framleiðslu. Margir síðastnefndu bílanna eru bæði sérstæðir og frumlegir.

Ef einhver sem les þessa frétt hefur áhuga á að bjóða í einn eða fleiri þessara bíla þá má finna lista yfir þá hér. Minnt skal á að frestur til að skila tilboðum rennur út kl 12 á hádegi að sænskum tíma (11 á Ísl.) föstudaginn 20 janúar.

Talsverður áhugi hefur verið fyrir því í heimabæ Saab, Trollhättan, að bæjarfélagið, jafnvel í samvinnu við einstaklinga og fyrirtæki kaupi safnið allt og reki það áfram heimamönnum og gestum og gangandi til ánægju og fróðleiks. Einhverjar þreifingar munu hafa átt sér stað um að kaupa þannig safnið út úr þrotabúinu en það reyndist ekki mögulegt þar sem stjórn þrotabúsins er skylt að reyna að fá sem best verð fyrir allar eigurnar. Besta leiðin til þess er auðvitað að fá tilboð í safnið, hvort heldur sem um er að ræða tilboð í einstaka bíla eða þá alla í einu. Bæjarfélagið og samstarfsaðilar þess um málið eru því nauðbeygðir til að taka þátt í útboðinu og láta auðnu ráða hvort safnið verður þeirra eða hvort það lendir I eigu einstaklinga og dreifist út um víðan völl.

En ef marka má matsgerð sem gerð hefur verið á verðmæti safnsins og einstakra safngripa þá telst það ekki dýrt á alþjóðlegan mælikvarða. Verðmæti þess í heild er talið vera um 354 milljónir ísl. króna.