Bílasala og nýskráningar í Evrópu í janúar

http://www.fib.is/myndir/Bilafloti.jpg

Í nýliðnum janúarmánuði voru nýskráðir tæplega 1,31 milljón nýir fólksbílar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er 0,3 prósent samdráttur miðað við janúar í fyrra. Mestur vöxtur í bílasölu varð í A. Evrópu og af einstökum löndum varð hann mestur í Litháen, 55,2 prósent. Næst mestur vöxtur varð á Íslandi, 47,9 prósent, þá í Slóvakíu, 36,6 prósent og í Rúmeníu, 34,5 prósent. Af einstökum bílategundum varð mestur vöxtur hjá Dacia, Smart, Mini og Nissan.

Svipað og á Íslandi fjölgaði nýskráningum í Finnlandi mikið eða um 27,4 prósent. Þá fjölgaði einnig í Póllandi um 24,6 prósent og í Slóveníu um 24 prósent. Mestur samdráttur varð hins vegar í Noregi eða 21,9 prósentt, í Lettlandi,  17,3 prósent og í Svíþjóð, 17,3 prósent einnig.

10,5 prósenta aukning varð í Þýskalandi miðað við janúar 2007 en taka verður fram að hækkun varð á virðisaukaskatti í Þýskalandi þann 1. janúar 2007. Fólk „hamstraði“ því nýja bíla í mánuðinum á undan til að losna við hækkunina. Nýskráningar fólksbíla í Þýskalandi í nýliðnum janúarmánuði urðu samtals 220.742.

Í Frakklandi var samdráttur í nýskráningum fólksbíla 5,6 prósent og á Ítalíu 7,3 prósent. Í Bretlandi varð samdrátturinn 2,1 prósent. Tölurnar ná til 27 ríkja innan Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna þriggja; Íslands, Noregs og Sviss. Tölur vantar frá Möltu og Kýpur.

Af einstökum bílategundum reynist Renault undirtegundin Dacia vera sú tegund sem mest eykur hlut sinn í Evrópu í janúar sl. miðað við sama mánuð í fyrra, eða um 73,8 prósent. Samtals voru nýskráðir 15.178 Dacia bílar og munaði þar mest um Dacia Logan. Í öðru sæti „hástökkvaranna“ varð Smart með aðra kynslóð smábílsins Smart Fortwo. Fjölgun nýskráninga reyndist 50,9 prósent og samtals voru nýskráningarnar 7.069. Í þriðja sæti varð Nissan med 50,1 prósent aukningu og 33.935 nýskráningar. Í því fjórða varð svo Mini með 34,4 prósenta aukningu og 12.421 nýskráningar í Evrópu í janúarmánuði sl. Aðrar tegundir sem bættu hlut sinn miðað við janúar í fyrra voru svo Kia (12,7%), bandarískir General Motors bílar (11,3%), BMW (9,1%) og Fiat (6,7%).

3,5 prósenta samdráttur varð hjá Ford samsteypunni og munar þar mestu um 38,1 prósenta samdrátt hjá Jaguar. Hjá General Motors varð 8,1 prósenta samdráttur meðan Renault samsteypan (Renault/Nissan/Dacia) bætti sinn hlut um 0,4 prósent þrátt fyrir 6,1 prósenta samdrátt í nýskráningum Renault bíla.  Hjá PSA (Peugeot/Citroën) varð 3,2 prósenta samdráttur sem skiptist nokkurnveginn jafnt milli Peugeot og Citroen.
Volkswagen samsteypan jók sinn hlut um 0,6 prósent. Að baki þeirri prósentutölu er 5,7 prósenta aukning hjá Volkswagen, 5,7 prósenta samdráttur hjá Audi, 5,8 prósenta samdráttur hjá Seat og 1,7 prósenta samdráttur há SKoda. Aðrar tegundir frá VW samsteypunni (Bentley, Bugatti, Lamborghini) dógust saman um 41,5 prósent.

7,7 prósenta aukning varð hjá Daimler AG. Bak við þá tölu er 4,3 prósenta aukning hjá Mercedes Benz og 60,9 prósenta aukning hjá Smart.

Söluhæsta bíltegund í Evrópu er  sem fyrr Volkswagen með 129.928 nýskráningar. Á hæla Fólksvagnsins koma Ford bílar með 110.332 nýskráningar og Opel/Vauxhall með 101.459 nýskráningar. Fjórða hæsta tegundin er Renault med 93.472 nýskráningar og loks Fiat með 92.295 nýskráningar. Það er samband evrópskra bílaframleiðenda; Acea, sem tekur þessar tölur saman.