Bílasala sökuð um stórfelld svik

Bílasalan Bensinlaus.is er sökuð um stórfelld svik af fyrrverandi starfsmönnum og ellilífeyrisþegi sem keypti af þeim bíl fyrir þremur mánuðum fær engin svör um hvar hann er. Fyrrverandi starfsmenn bílasölunnar Bensinlaus.is segja um stórfeld og alvarleg svik á hendur viðskiptavinum sem fái ekki í hendur þá rafbíla sem þeir hafi greitt fyrir – og í sumum tilvikum staðgreitt að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Einn viðskiptavinur bílasölunnar, sem er ellilífeyrisþegi, hefur ekki enn fengið nýjan Ford Mustang í hendurnar, sem hann festi kaup á af Bensinlaus.is í upphafi þessa árs. Fram kemur að við undirskrift samningsins hafi hann greidd 1.5 milljónir og afganginn 6,4 milljónir nokkrum dögum síðar

Kaupandi bifreiðarinnar segir forsvarsmenn bílasölunnar ekki svara síma en þeir eru sagðir vera komnir til Spánar. Lögmaður kaupandans hefur tilkynnt málið til lögreglu og er að vænta viðbragða af hennar hálfu.

„Bílasalarnir svara ekki í síma og munu núna vera komnir til Marbella á Spáni,“ segir Jóhannes Þór sem hefur reynt að rifta sölunni án árangurs. Lögmaður hans vinnur að málinu sem hefur verið tilkynnt til lögreglu og er aðgerða af hennar hálfu að vænta, að sögn Jóhannesar Þórs. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fjórir lykilstarfsmenn bílasölunnar gengu nýverið á dyr vegna þessara viðskiptahátta, en þar eru á ferðinni aðstoðarframkvæmdastjóri, sölustjóri, innkaupastjóri og mannauðsstjóri.

„Við vitum að stjórnendur Bensinlaus.is eru að sýna viðskiptavinum verksmiðjupantanir á bílum úti á meginlandi Evrópu sem enginn fótur er fyrir, en með eftirgrennslan vegna nokkurra svona tilvika komst ég að því að engin pöntun lá fyrir,“ segir Jóhanna Pálsdóttir, fyrrverandi innkaupastjóri hjá bílasölunni í samtali við Fréttablaðið

Gísli Þór Gíslason, fyrrverandi sölustjóri hjá Bensinlaus.is, staðfestir þessa sögu við Fréttablaðið og segir að hluti svikanna sé að seinka ítrekað afhendingu bílanna hér á landi.