Bílastórmarkaður í Svíþjóð
28.12.2005
Fyrsti bílastórmarkaðurinn í Svíþjóð hefur verið byggður og opnaði dyr sínar í fyrsta sinn fyrir viðskiptavinum nú í morgun. Markaðurinn er í Jönköping í Svíþjóð í húsnæði með 40 þúsund fermetra sýningarrými þar sem til sölu eru átta tegundir bíla. Þær eru Saab, Opel, Hyundai, Toyota, Lexus, Peugeot, Chevrolet, Cadillac og Corvette. Auk þess eru þarna seldir sendibílar og aðrir atvinnubílar og notaðir bílar. Markmið forstjórans og eigandans, Benny Holmgren, er að selja 10 þúsund bíla á árinu 2006.
Þetta er fyrsti bílastórmarkaðurinn á Norðurlöndum en stofnun þeirra og rekstur er hvorttveggja mögulegt vegna nýlegra reglna Evrópusambandsins sem skylda bílaframleiðendur til að selja bíla í heildsölu á sama verði til allra smásöluaðila sem vilja og geta keypt bíla til endursölu og geta þjónustað bílana. Í reglunum (sem líka gilda á Íslandi) er þeim sem selja bíla settar þær skyldur á herðar að bera ábyrgð gagnvart kaupanda bílsins á göllum sem fram kunna að koma á tveggja ára ábyrgðartíma bílsins. Þeirri ábyrgð getur söluaðili, hver sem hann er, ekki komið yfir á aðra söluaðila eða meinta „umboðsaðila“ sams konar bíla.
Samkvæmt frétt í Svenska Dagbladet segir Benny Holmgren eigandi Holmgrens Bil AB að bílastórmarkaðir séu það sem koma skal. Hann segist vera sannfærður um að bílaverslunin muni breytast á svipaðan hátt og verslun með raftæki hefur þegar gert. Raftæki og heimilistæki hafi áður fyrr fengist í smáverslunum sem hver seldi fé, jafnvel eitt vörumerki. Í dag kaupi almenningur raftæki og heimilistæki í stórum vöruhúsum sem selja fjölda vörumerkja. Sama sé að gerast með bílana. Bílakaupendur hafi ekki lengur tíma til að rúnta milli söluaðila einstakra vörumerkja til að skoða og reynsluaka, heldur vilji geta komið á einn stað og valið á milli.„Hjá mér getur fólk borið saman tíu tegundir smábíla í milljón króna flokknum, reynsluekið tveimur og gert síðan út um kaupin svo dæmi sé nefnt,“ segir Benny Holmgren við Svenska Dagbladet. Þú getur farið inn á heimasíðu Holmgrens Bil hér.