Bílasýningin í Dubai

Alþjóðlega bílasýningin í olíuríkinu Dubai við Persaflóa var opnuð í gær og stendur til og með laugardeginum 9. nóv. Eins og vænta má þar sem olíupeningarnir flæða er megináhersla þessarar sýningar á rándýra ofurbíla og sá bíll sem einna mesta athygli vakti við opnunina í gær heitir Devel og er fyrsta eintak raðframleiddra bíla í Dubai. Þetta er sportbíll með 5000 (já, fimm þúsund) hestafla vél og sagður komast á 560 km. hraða.

Já, þessi bílasýning er stórkostleg orgía hestafla, hraðskreiðni og lúxuss. Því vekur það óneitanlega athygli hversu mikið er á sýningunni af ódýrum kínverskum bílum. Að kínversku bílunum frátöldum eru stórframleiðendur bíla fyrir venjulegan almenning lítt áberandi. Toyota, Hyundai, Fiat og fleiri slíkir falla algerlega í skuggann af Ferrari, Bugatti, Maserati, Jaguar o.fl. og Volvo sem framleiðir vandaða bíla fyrir stöndugri hluta vestrænna millistétta tekur ekki einu sinni þátt í sýningunni.

Ofursportbílar og ofurlúxusbílarnir eiga sviðið og meðal þeirra fyrrnefndu má nefna danskbyggða ofursportbílinn Zenvo sem með sína 1.100 hestafla vél sem er sérbyggð í Bandaríkjunum. Zenvo verður trúlega seint algeng sjón í umferðinni því að samkvæmt framleiðsluáætlun stendur ekki til að byggja nema 15 eintök af bílnum.

Devel bíllinn frá Dubai verðu heldur ekki algengur því að ekki stendur til að raðframleiða nema sjö stykki af honum. Fimm þúsund hestafla vélin sem sérsmíðuð er í Bandaríkjunum er 16 strokka með nokkrum túrbínum. Bíllinn er auðvitað ofboðslega dýr en endanlegt verð ræðst nokkuð af því hversu mikið af gulli og platínu kaupendur óska eftir því verði hlaðið í innréttingar hans. Talsmaður framleiðandans segir að Devel bíllinn sé í sjálfu sér heimsmet sem margir vilji eignast. Það verði því enginn vandi að selja alla sjö bílana sem ætlunin er að byggja.