Bíleignin stöðugt kostnaðarsamari

Arnar Ingi Jónsson hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans hefur farið yfir þá kostnaðarliði og undirvísitölur í neysluvísitölunni sem lúta  að því að eiga og reka bifreið. Niðurstöður hans eru í sem skemmstu máli þær að frá því í janúar 2008 hefur varningur og þjónusta sem eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þess að eiga og reka bíl hækkað um 30-98 prósent. Þetta kemur fram á vefnum spyr.is. Tilefni rannsóknarinnar var fyrirspurn frá lesanda um kostnað við að eiga og reka bifreið. Fram kemur í frétt um málið að á bíla sé alls ekki hægt að líta á sem fjárfestingu, nema þá kannski fornbíla.

Síðan segir í umræddri frétt: „Kaup á bifreið eru venjulega önnur stærstu kaup einstaklinga á eftir húsnæði. Vegna þess háa verðs sem greiða þarf fyrir bíla líta margir á þá sem fjárfestingu. Að kaupa bíl er hinsvegar ekki fjárfesting.

Fjárfestingar skila undir venjulegum kringumstæðum arði, húsnæði hækkar (yfirleitt) með tímanum, arður er greiddur af hlut í mörgum félögum og vextir reiknast af bankainnistæðum svo dæmi séu tekin. Bifreiðar falla í verði með árunum ásamt því að ýmis annar kostnaður er fólgin í því að eiga bíl. Kaup á bíl geta því ekki fallið undir skilgreininguna fjárfesting.

Kostnaðurinn sem fellur til við bifreiðar er margvíslegur. Kaup á bensíni er ekki eini kostnaðarliðurinn. Á heimasíðu FÍB má finna yfirlit yfir kostnað við kaup á nýjum bíl, þar sést að bensínverð er einungis um fjórðungur af þeim heildarkostnaði sem búast má við af tæplega þriggja milljóna króna bíl sem ekið er 15.000 km. á ársgrundvelli.

Ef fólk vill kynna sér nánar hvaða kostnaður er fólginn í eign bifreiða er gott að kynna sér upplýsingarnar á vef FÍB 

Varðandi spurninguna um muninn á innlánum og kaupum á bíl má sjá á heimasíðu FÍB að 2,8 m.kr bíll sem ekið er 15.000 km á ári fellur í verði um 364 þúsund krónur á ári. Það þýðir að eftir 3 ár mun verð bílsins vera 1,7 milljón krónur.

Ef litið er á verðtryggðan reikning (þar sem ekki er gert ráð fyrir verðbólgu við útreikning á verðrýrnun bílsins) má sjá td. á heimasíðu Landsbankans að verðtryggðir vextir eru um 1,7% á ársgrundvelli.

Væru þessar 2,8 m.kr. lagðar inn á verðtryggðan reikning í 3 ár fengi viðkomandi 145 þúsund krónur í vexti að þeim tíma liðnum.

Á sama tíma hefði verð bílsins fallið um 1,1 milljón króna (það er fyrir utan allan annan kostnað á þessum 3 árum). Bílakaupin hefðu því verið mun verri „fjárfesting“.

Hafa verður þó í huga að sá sem setur peninginn inn á reikning hefur ekki afnot af bifreiðinni á þessum tíma, en í okkar þjóðfélagi eru margir tilbúnir að greiða þetta verð fyrir þann munað að geta keyrt að vild.

Hér verður ekki lagt mat á það hvort sú þjóðfélagsskipan sé rétt eða hvort leita eigi leiða til þess að auðvelda borgurum annarskonar ferðamáta, hvort sem er með almenningssamgöngum eða reiðhjólum.

Einnig verður að taka fram að ýmis annar kostnaður fellur til á móti festi maður ekki kaup á bíl svo sem strætisvagnakort, leigubílaferðir og kaup á reiðhjóli.

Eins og með aðra hluti hefur rekstrarkostnaður og kaupverð nýrra bifreiða aukist undanfarin ár.

Undirvísitölur Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sýna að frá því í janúar 2008 hefur verð á þeim varningi og þjónustu sem nauðsynleg er bíleiganda hækkað á bilinu 30-98%.

Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 47%, því hafa flestir þeir kostnaðarliðir sem hljótast af eigu bifreiða hækkað meira en sem nemur almennum hækkunum á verðlagi.“