Bíll ársins í Evrópu 2013

Við opnun bílasýningarinnar í Genf á dögunum var tilkynnt um það hvaða bíll hefði verið valinn bíll ársins 2013 í Evrópu. Bíllinn er hinn nýi Volkswagen Golf. Í öðru sæti var sportbíllinn Toyota GT 86/Subaru BRZ og í því þriðja Volvo V40.

Undanfarin tvö ár hafa rafbílar valist til að bera þennan titil. Í fyrra var það Opel Ampera og árið þar á undan var það Nissan Leaf. Það má því segja að valnefndin hafi snúið af braut framúrstefnunnar og inn á gamalkunnar slóðir.

Evrópskir bílablaðamenn eru misánægðir með valið í ár. Einn segir að þetta sé svipað því að Japanir veldi Toyota Corolla sem bíl ársins, annar segir að valið lýsi einstaklega ófrjóu hugarflugi valnefndarinnar og ekki hefði verið hægt að komast að hversdagslegri og grárri niðurstöðu.

Þeir sem ánægðir eru með valið segja að VW Golf sé mikilvægur bíll og nýjasta kynslóð hans mjög góð og traust. Þetta sé bíll sem er mjög góður kostur fyrir almenna neytendur þótt ekki búi hann í sjálfu sér yfir sérstökum nýjungum. Nýjungar geti verið varasamar að því leyti að þær séu ekki að fullreyndar og geti valdið kaupendum bílanna óþægindum síðar meir. Nú sé kreppa í bílaiðnaði og bílaviðskiptum í álfunni og því eðlilegt að halla sér að því „örugga og trausta.“