Bíll fyrir þróunarlönd

Breskur sör; Torquil Norman að nafni hefur hannað bíl sem sérstaklega er hugsaður út frá þörfum íbúa þróunarlanda. Bíllinn, sem kallast OX, er mjög einfaldur. Hann er fluttur í hendur kaupenda í flötum pakkningum eins og húsgögn og innréttingar frá IKEA og tveir óvanir menn eiga að geta sett hann saman á tæpum 12 klst.

Frumkvöðull OX bílsins, Sir Torquil Norman auðgaðist á því að framleiða leikföng undir vörumerkinu Bluebird

http://www.fib.is/myndir/Ox-4.jpg
http://www.fib.is/myndir/Ox-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Ox-3.jpg

Toys sem síðar varð uppistaðan í leikfangastórveldinu Mattel sem varð til við sameiningu Bluebird Toys, Fisher & Price og Barbie fyrir um 15 árum. Stóran hluta þess fjár sem Norman fékk fyrir Bluebird Toys lagði hann í sjálfseignarstofnun sem hefur m.a. þann tilgang að stunda þróunarhjálp og aðstoða fátækt fólk og unglinga á villigötum á ýmsa vegu. OX bíllinn er eitt nýjasta verkefni þessarar stofnunar.

 Hugmyndin um ódýrt og einfalt farar- og flutningatæki fyrir þriðja heiminn er svo sem ekki ný af nálinni, en mörgum finnst þessi nýjasta vera ein sú besta. Það er ekki síst sú hugmynd að ganga frá bílnum til sendingar eins og IKEA innréttingu sem gerir sitt til þess, því að með því móti verða allir flutningar heimshorna í milli miklu ódýrari og einfaldari. Í stað eins bíls í flutningsgámi komast sex Ox bílar fyrir. Ennfremur þarfnast mörg þróunarsvæði mjög bíls sem er ódýr og einfaldur en þó sterkur og hábyggður og þolir akstur á vondum vegum og vegleysum með bæði fólk og varning. Þá er hönnun bílsins það einföld að tveir menn með skrúflyklasett geta sett hann saman á góðri dagstund, jafnvel þótt þeir séu ólæsir. Slíkir eiginleikar eru mikilvægari á þróunarsvæðum að mati Torquil Norman heldur en sex-átta loftpúðar og flókinn tölvubúnaður.

Þegar svo OX hefur verið skrúfaður saman er þar kominn mjög sveigjanlegur bíll og ekki ósvipaður og gamli Ford T að því leyti. Hann er þannig að auðvelt er að byggja yfir hann og útbúa á ýmsa vegu – sem flutningabíl sem ber allt að tveimur tonnum, eða sem 13 manna smárútu. Frá hendi framleiðanda er OX með stýrishúsi þar sem ökumaðurinn situr í miðju en tvö farþegasæti eru honum til sinnar hvorrar handar. Dyr eru á báðum hliðum stýrishússins og allar rúður í gluggum eru flatar. Yfir pallinn á bílnum má tjalda blæju og útbúa frumstæð sæti, ekki ósvipuð þeim sem voru aftur í gömlu Rússajeppunum þar sem farþegar sitja þvert á akstursstefnu. Pallurinn er það stór að að ef engir eru farþegarnir komast átta 200 l bensíntunnur á hann. Burðarþolið er tvö tonn.

Ætlunin er að framleiða OX bíla og pakka þeim í „IKEA“ pakkningarnar á tveimur stöðum í Bretlandi þaðan sem þeim verður síðan raðað í gáma og sendir til kaupenda. Vélin er 2,2 l dísilvél frá Ford og drifið er á framhjólunum. Vel hátt verður undir bílinn og skögun framyfir bæði aftur- og framhjól er nánast engin. Hvorttveggja þýðir það að hægt verður að aka bílnum á slæmum vegum og jafnvel óbrúaðar á, ef þær eru ekki dýpri en 75 sm.

Síðarmeir er ætlunin að bjóða OX með drifi á öllum hjólum og lengda útgáfu bílsins einnig. Frumgerðin sem myndirnar sýna, er mjög svipuð að lengd og venjulegur Skoda Yeti. 73% þyngdarinnar á ólestuðum bílnum er á framhjólunum. Sé bílinn kominn með fulla hleðslu á pallinn eru 53 prósent heildarþyngdarinnar á framhjólunum.

Ekki er enn útséð með að framleiðsla á OX verði að veruleika. Sir Torquil Normad hefur stofnað sérstakan sjóð; Global Vehicle Trust til að fjármagna verkefnið og hefur lagt til hans eina milljón punda af eigin fé og reynir að fá fleiri til að leggja sjóðnum til tvær milljónir punda til viðbótar til að framleiðsla geti hafist.  Hann reiknar með að OX muni kosta milli 10 og 15 þúsund pund stykkið. Það kann að hljóma talsvert mikið verð fyrir fólk í þróunarríkjum að greiða. Á móti kemur að byggja á bílinn með það fyrir augum að hann geti enst a.m.k. 25 ár.

En hvers vegna er Sir Torquil Normad að vasast í þessu? „Ég hef aldrei botnað í því hversvegna jafn stór og voldug atvinnugrein og bílaiðnaðurinn lætur sér nægja að þjóna einungis 25% jarðarbúa,“ segir hann.