Bíll knúinn áfram af saltupplausn?

Bílafyrirtæki í Lichtenstein sem heitir NanoFlowcell viðraði framtíðarhugmynd sína um saltknúinn bíl á bílasýningunni í Genf í fyrra. Á sýningunni sem nú er framundan mun fyrirtækið sýna nýjustu birtingarmynd ,,saltbílsins,“ sportbílinn Quant 48Volt.

Quant 48Volt er rafknúinn. Rafmótorar eru við hvert hjól, sem fá orkuna úr tveimur vökvageymum. Í öðrum geyminum er sterk saltupplausn mettuð pósitívt hlöðnum jónum en í hinum eru jónirnar negatívt hlaðnar. Þegar þessir vökvar svo blandast leysist út 48 Volta raforka sem knýr rafmótorana fjóra. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu NanoFlowcell er þessi samruni algerlega hættulaus, engin mengun verður né heldur skapast brunahætta. Þá þarfnist þessi tækni ekki þess að þurfa að reiða sig á rafhleðslustöðvar hér og þar, heldur einungis áfyllingarstöðva þar sem hægt er að nálgast vatn og salt.

Bíllinn sjálfur er með samanlagt 760 hestafla vélarafl og er sagður komast á 300 km hraða og á fullum saltvatnstönkum er hann sagður komast þúsund kílómetra vegalengd. Enn sem komið er liggja engar fræðilegar skýringar frammi, né heldur upplýsingar um hvernig þetta allt gerist né hvort þetta sé eins vænlegt og hermt er. Tæknitímarit sem greint hefur frá bílnum hefur þó bent á að sé rafspennan í bílnum einungis 58 volt þá þurfi mjög svera kapla til að flytja nægan straum með svo lágri spennu til mótoranna og kallar eftir frekari skýringum á hvernig það sé leyst.

Sjá má meira um Quant 48Volt á heimasíðu NanoFlowcell.