Bíll úr búi Steve McQueens til sölu

Ford GT40 sem leikarinn og kappakstursmaðurinn Steve McQueen átti um tíma og notaði sem tökubíll við tökur á kvikmyndinni Le Mans, verður seldur á árlegu bílauppboði í Monterey í Kaliforníu í ágústmánuði nk. Búist er við að hátt verð fáist fyrir bílinn enda er hann í ágætu lagi og á sér talsvert mikla sögu.

Grindarnúmer bílsins er P/1074 og er hann einn fyrsti léttbyggði GT 40 bíllinn sem byggður var utan um svokallað „spaceframe“ burðarvirki. Hann var notaður sem keppnisbíll á flestum þekktustu kappakstursbrautum heimsins árið 1968 og meðal þeirra sem kepptu á bílnum var Formúluökumaðurinn Jacky Ickx. Steve McQueen keypti bílinn árið 1970 í nafni kvikmyndafyrirtækis síns; Solar Productions og notaði hann sem myndatökubíl við tökur á kappakstursmyndinni Le Mans, sem fyrr segir, en seldi hann eftir að tökum lauk.

Síðan þá hafa nokkrir átt bílinn og hann verið notaður talsvert mikið í tengslum við marga aksturskeppnina hér og þar um veröldina fram á þennan dag, í seinni tíð í hverskonar fornbílarallkeppni og fornbílarall. Sá sem á bílinn nú og vil selja hann, eignaðist hann árið 2000 og gerði vel upp og setti í núverandi horf árið 2003. Bíllinn er í gömlum einkennislitum Gulf, olíufélagsins eins og sést á myndinni, og þekktur meðal áhugamanna um sígilda bíla og safnara sem Le Mans bíllinn. Búist er við að hann fari á mjög háu verði, jafnvel á meir en 300 milljónir íslenskra króna, enda telst hann merkur vagn með góða sögu sem keppnisbíll og svo er hann síðast en ekki síst í ágætu lagi og óbreyttur frá upphaflegri gerð.