Bíllinn ekki lengur stöðutákn

Internetið hefur hrint af stað varanlegum breytingum á bílaheiminum og ekkert er í sjónmáli sem getur stöðvað það að þær haldi áfram. Bíllinn er ekki lengur jafn eftirsóknarvert tákn frelsis sem hann var flestu ungu fólki fyrr á tíð. Nú er svo komið að 60 prósent 18-24 ára gamalla Stokkhólmsbúa sjá ekki einu ástæðu til að afla sér ökuréttinda. Þetta kemur fram í grein í Svenska Dagbladet.

Á árunum upp úr 1960 var það draumur langflestra ungmenna, ekki síst ungra karlmanna, að eignast bíl og því nýrri, þeim mun betra. En nýr og góður bíll er ekki lengur jafn eftirsóknarverður og þá þótti. Góð Nettenging er nú í hugum ungs fólks mikilvægari til að rækta sambandið við vini og skapa ný tengsl, en að eiga bíl til að bregða sér niður í bæ á föstudagskvöldi til að sýna sig og sjá aðra á rúntinum. Svo er bílinn orðinn svo dýr, það er dýrt að eignast hann og dýrt að eiga hann og reka.

Þetta eru naprar staðreyndir fyrir bílaframleiðendur sem þeir neyðast í sívaxandi mæli til að laga sig að. Sala nýrra bíla í Evrópu dregst stöðugt saman og það er ekki bara kreppunni að kenna heldur viðhorfs- og lífsstílsbreytingum. Árið 2007 seldust 15 milljón nýir bílar í Evrópu en í fyrra 11,8 milljón bílar og ekkert bendir til annars en að enn færri nýir bílar seljist á þessu ári og það er einkum í yngri aldurshópunum sem bílakaup dragast saman. Stöðugt fleira ungt fólk sem flytur úr foreldrahúsum í úthverfum og svefnbæjum borganna til að stofna eigið heimili, flytur inn í miðborgirnar þar sem stutt er í alla þjónustu og vinnu. Almannasamgöngukerfin duga þessu fólki ágætlega auk þess að ganga eða hjóla. Og í miðborgunum er heldur ekki mikið pláss til að eiga og geyma bíl sem sjaldan þarf að grípa til. Það er því miklu hentugra að leigja bíl þegar þörf krefur, eða eiga aðild að bílasamlagi. Slík bílasamlög gerast æ algengari erlendis þótt ekkert slíkt fyrirfinnist enn hér á landi svo vitað sé. Eðlilegt hlutfall bíla og fólks í slíku samlagier talið vera 15 manns um hvern bíl. Bílasamlagið sér um að geyma, viðhalda og miðla bílunum og einstaklingarnir og fjölskyldur þeirra eru lausar við allt umstangið sem bílaeign fylgir, en hafa nánast óheftan að gang að bíl eftir þörfum.

Einn  af talsmönnum Renault samsteypunnar tekur undir það að bíllinn sé hættur að vera stöðutákn, sérstaklega meðal yngri aldurshópanna. Hann sé í hugum fólks í sívaxandi mæli fyrst og fremst verkfæri. Evrópskir bílaframleiðendur séu í vaxandi mæli að koma til móts við þetta breytta viðhorf með því að leggja vaxandi áherslu á það að framleiða bíla sem ekki eru „merkjavara,“ bíla eins og Dacia og Skoda.