Bíllinn – stærsta ástin?

http://www.fib.is/myndir/S-Benz.jpg

S-Benz -tákn um velgengni í lífinu.

Evrópskir karlmenn bera miklar tilfinningar til bíla sinna sem væru þeir lifandi verur. Um það vitna orðtök eins og t.d. hjá Þjóðverjum sem segja stundum að bíllinn sé uppáhaldsbarnið sitt. Og vissulega hlýtur bíllinn víða að vera í miklu uppáhaldi hjá þeim sem með ríkisfjármálin fara af því hversu pottþétt skattandlag hann er.
Tímaritaútgáfan Motor-Presse International hefur spurt bílablaðamenn um alla Evrópu hvað löndum þeirra finnst um bíla sína og hvaða þýðingu bíllinn hefur fyrir þá. Svörin eru margháttuð en niðurstöðurnar er þessar helstar:

Austurríki: Bíllinn er einskonar heilög kýr hjá Austurríkismönnum.

Frakkland: Bíllinn er stöðutákn og vitnisburður um árangur í lífinu. Um þessar mundir leggja Frakkar mjög mikið upp úr því að bílllinn sé öruggur og búinn þægindum.

Króatía: Maður lánar engum, ekki einu sinni besta vini sínum konuna sína eða bílinn sinn, segja Króatar.

Noregur: Bíllinn er aðal tekjulind ríkisins segja Norðmenn sem búa við einna hæstu álögur á bíla á byggðu bóli.

Pólland: Fyrst fær maður sér bíl, síðan fær maður sér íbúð, segja Pólverjar.

Rússland: Bíllinn er afskaplega mikilvægt ímyndartákn hjá Rússum. Algengt er að fólk kaupir bæði stærri og dýrari bíla en eðlilegast væri miðað við heimilisþarfir og efnahag. Þetta skýrir það að stórir og dýrir bílar standa gjarnan á bílastæðum sem tilheyra litlum og fátæklegum íbúðum í fjölbýlishúsum.

Sviss: Ást Þjóðverja á bílum er ekki einsdæmi því að ekki virðist hún minni hjá grönnum þeirra, Svisslendingum sem einnig tala um bílinn sem uppáhaldsbarnið sitt. Klár vísbending um að þeir meini það er að fjöldi bíla á hvern fullorðinn Svisslending er meiri en fjöldi barna á hvern fullorðinn. Svisslendingar eru elskir að stórum og aflmiklum bílum með miklum þæginda- og tæknibúnaði. Í Sviss seljast fleiri lúxusbílar á íbúa en í nokkru öðru Evrópulandi.

Spánn: Spánverjar taka gjarnan þannig til orða að bíllinn sé fyrsta ást Spánverjans og hans næst stærsta fjárfesting á eftir íbúðarhúsnæðinu.

Því miður er ekkert um viðhorf okkar Íslendinga til bílsins enda virðist útgáfufyrirtækið hafa steingleymt að senda okkur spurningalista sinn. Hefur þú skoðun á viðhorfum íslendinga til bíla sinna? Sendu okkur endilega línu á fibbladid@hn.is
The image “http://www.fib.is/myndir/Trabant.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Trabant - kannski ekki beint tákn um velgengni í lífinu, en allavega um baráttuvilja.