Bíllinn þinn fylgist með þér!

Nútíma tölvu- og fjarskiptatækni gerir bílaframleiðendum það mögulegt að fylgjast með bíleigendum, safna upplýsingum um þá og selja þær síðan. Sumir gera það þegar og þau gögn sem bíllinn safnar um eiganda sinn verða stöðugt ítarlegri og nákvæmari. Bæði bifreiðaeigendafélög og heimssamtök þeirra; FiA telja fulla ástæðu til að spyrna við fótum og kveða skýrt upp úr með það að eigandi/notandi bílsins eigi þau gögn sem safnast en ekki framleiðandi bílsins.

Tölvu- og netsamskiptakerfi bílanna verða stöðugt öflugri. Þau safna stöðugt gögnum um hvernig honum er ekið og hvert, hvar honum er lagt, hvernig aksturslagið var, og jafnvel hver ók honum á hverjum tíma. FiA gerði nýlega rannsókn á þessu í nýjum bílum. Úr tölvukerfi þeirra fengust m.a. upplýsingar um hve hratt vélin snerist, hve hratt var ekið, hvenær og hvar var skipt um ökumann og hvar og hvenær og hve lengi honum hafði verið lagt síðustu 100 skiptin. Öll þessi gögn hafði svo bíllinn sent frá sér inn í tölvumiðstöð framleiðandans. Að mati FiA kallar þessi gagnasöfnun og notkun upplýsinganna á skýr ákvæði í neytendalöggjöf og það verði skýrt hver hreinlega eigi þau. Verði það ekki á hreinu er útséð með það að bíleigendur eru ekki sjálfráðir um það hverjum þeir fela að þjónusta bíla sína.

Bílarnir eru sífellt meira að líkjast öflugugum snjallsími á fjórum hjólum. Í þá safnast stöðugt gögn um ferðir og ástand þeirra og „heilsufar.“ Án þess að eigandinn hafi hugmynd um þá safnast þessi gögn upp í gagnabönkum framleiðenda sem geta selt þær hverjum sem er án þess að eigandinn hafi hugmynd um, hvað þá hann hafi verið spurður um leyfi. Þarna skortir verulega á neytendaverndina og því krefst FiA skýrrar lagasetningar sem gildi fyrir alla Evrópu. Eins og lögin eru nú í álfunni er þessi gagnasöfnun og gagnanotkun á mjög gráu svæði og bifreiðaeigendurnir hafa ekki einu sinni lagalegan rétt til að komast í gögnin enda þótt að þeir með réttu hafi eignast þau þegar bílinn var keyptur.

FiA krefst þess að sá leyndarhjúpur sem nú umlykur þetta mál allt verði rofinn hið fyrsta. Neytandinn verði að eiga síðasta orðið um það hvort eða hvaða gögn megi safnast upp í tölvukerfi bílsins, hvert þau fara, hver geti hagnýtt sér þær og hvernig. Neytandinn eigi líka að hafa síðasta orðið um það hvort bíllinn yfirleitt safni þessum gögnum. Því geti bíleigandi hafnað án þess að framleiðandaábyrgð falli niður eða honum verði neitað um hverskonar þjónustu sem eigendum standi annars til boða.

FiA bendir á að „snjallvæðingu“ bíla fylgi vissulega margir kostir. Snjallvæðingin getur t.d. komið í veg fyrir að bíllinn bili á vegum úti og bíllinn getur fundið greiðar leiðir fram hjá umferðarhnútum og stuðlað að greiðari umferð. Mjög neikvætt sé hinsvegar að bíleigandinn hafi ekkert um það að segja að þriðji aðili kaupi upplýsingar um ferðir og notkun bílsins, né geti ráðið því sjálfur hver þjónustar hann. Það geti hann ekki vegna þess að framleiðandinn fari með gögnin eins og sína eigin eign og er því sá eini sem getur bilanagreint hann í tæka tíð og kallað hann inn til viðgerðar.

Hér má sjá stutta mynd um þetta frá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku