Bíómyndarbíll seldur

38 ára gamall Svartur Pontiac Trans Am í eigu kvikmyndaleikarans Burt Reynolds var seldur nýlega á uppboði. Bíllinn var sleginn nýjum eiganda á 480 þúsund dollara. Það jafngildir tæplega 60 milljónum ísl. kr.

Þótt verðið sem greitt var fyrir bílinn sé hátt og langt umfram gangverð þessara bíla, t.d.

http://fib.is/myndir/TransAmbilarnir.jpg
Bjórflutningatrukkurinn og Pontíakkinn í Smokey
and the Bandit.

á e-bay var það reyndar í lægri kantinum fyrir bíla sem notaðir hafa verið í frægum kvikmyndum, eins og t.d. Aston Martin bílarnir í James Bond myndunum og De Lorean bíllinn í myndinni Aftur til framtíðar. En þess verður þó að geta að þessi umræddi bíll kom aldrei fram í myndinni Smokey and the Bandit heldur var hann settur undir Burt Reynolds, aðalstjörnu myndarinnar þegar tökum lauk og markaðssetning myndarinnar hófst.

Söguþráður myndarinnar er nokkurnveginn sá að bandittinn sem Burt Reynolds leikur og vörubílstjórinn vinur hans sem leikinn er af kántrísöngvaranum Jerry Reid taka að sér að smygla vörubílshlassi af Coors bjór langa leið til Texas á sem skemmstum tíma. Hlutverk bandittsins á Trans Am bílnum er að draga athygli vegalögreglu frá vöruflutningabílnum og hraðakstri hans, að Trans Am bílnum. Myndin snýst síðan um það og samskipti félaganna tveggja við sveitalöggu nokkra sem leikin er af Jackie Gleeson og gengur oft mikið á í þeim og í akstrinum.

Í tökum myndarinnar voru notaðir þrír svartir Pontiac Trans Am bílar sem allir voru í rúst og nánast ónýtir þegar tökum lauk. einn þeirra var reyndar nokkurnveginn ökuhæfur. Því var það ráð rekið að kaupa fjórða bílinn til að nota í markaðssetningu myndarinnar og hefur hann síðan verið í eigu Burt Reynolds þar til nú.

Myndin Smokey and the Bandit varð fljótt mjög vinsæl og er það enn í dag. Hún varð til þess að auka mjög á vinsældir Pontiac Trans Am og tvöfaldaðist sala á bílnum eftir að sýningar hófust á myndinni.