Bjargast Saab?

Sænskir fjölmiðlar höfðu það eftir fréttastofunni Bloomberg News um nýliðna helgi að fulltrúar General Motors og Spyker Cars hefðu fundað stíft í Stokkhólmi sl. föstudag og að kaupsamningur væri tilbúinn til undirritunar. Samningurinn yrði trúlega undirrtiaður á morgun, þriðjudaginn 26. janúar.

 Bloomberg greinir frá því að General Motors hafi tekið tilboði Spyker Cars upp á 500 milljóna dollara í peningum og 325 milljónir dollara í svokölluðum forgangshlutabréfum sem mun þýða það að fari Saab á hausinn hefur GM forgang að því að nýta það sem fémætt er í fyrirtækinu upp að nafnverði forgangsbréfanna. Það er sagt forsenda þess að kaupin verði gerð, að sænska ríkisstjórin ábyrgist 400 milljón evra lán frá Evrópska fjárfestingabankanum til Saab.

 Bloomberg hefur það eftir ónafngreindum heimildum að GM setji það sem skilyrði fyrir kaupunum að rússneski viðskiptajöfurinn Vladimir Antonov komi hvergi nærri þeim. Antonov þessi er stjórnarformaður og stór hluthafi í Zeewolde, móðurfélagi Spyker Cars og GM er sagt krefjast þess að hann gangi úr stjórn móðurfyrirtækisins og selji 30 prósenta hlut sinn í því.