Bjarni Ben boðar aukna bílaskatta

Fjármögnun stærri framkvæmda í vegakerfinu með gjaldtöku hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Í vor bárust fregnir af því að innheimtu veggjalds í Hvalfjarðargöngum á vegum Spalar verði hætt í september. Upphaflega var áætlað að göngin yrðu greidd að fullu 20 ár frá opnun. Þann 11. júlí sl. voru 20 ár liðin frá því að Hvalfjarðargöngin voru opnuð fyrir bílaumferð.  Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið tvísaga undanfarið varðandi það hvort standa eigi við fyrirheitin um að göngin verði gjaldfrjáls eftir að Vegagerðin tekur yfir nú á haustmánuðum.

Fram kom í viðtali í RÚV við Bjarna Benediksson, fjármálaráðherra, á dögunum að halda verði umræðunni áfram um stærri framkvæmdir í vegakerfinu. Valið standi einfaldlega um að láta þær bíða eða taka upp gjaldtöku. Ráherra sagði brýnt að verja meiri fjármunum í vegi landsins og að ríkisstjórnin hafi lagt á það áherslu. Fé sé að skornum skammti og því þurfi að leita allra leiða.

Fjármálaráðherra sagði að fjárframlög ríkisins til vegamála væru að aukast en að bæta þurfi enn frekar í fjármögnunina. Hann sagði stöðuna það alvarlega að taka verði pólítíska afstöðu um það hvort flýta eigi tilteknum mikilvægum stórum samgöngubótum með sérstakri gjaldtöku eða vegatollum.

Skattar á bíleigendur á áttunda tug milljarða króna árlega

Stjórn FÍB er mjög gagnrýnin á hugmyndir um nýja bílaskatta í formi vegtolla. Því miður er það svo að allt of lítið hlutfall skatta af bílum rennur til vegamála. Þegar er verið er að innheimta á áttunda tug milljarða króna í ríkissjóð árlega í formi skatta á bíla og umferð.  Af þessum sköttum renna innan við 25 milljarðar króna til nýframkvæmda og viðhalds vega. Við þessar aðstæður er það einkennilegt að stjórnmálamenn sem stunda atkvæðaveiðar með lækkun skatta á vörunum boði nýja bílaskatta í formi vegtolla.

590 milljarðar króna

Árið 2016 greiddu vegfarendur 1.560 milljónir króna í vegtoll undir Hvalfjörð en þar af fóru 590 milljónir í arð til eigenda, tekjuskatt, virðisaukaskatt og rekstur vegna yfirstjórnar og skrifstofu. Þetta þýddi að af hverjum 1000 krónum sem bíleigandi greiddi fyrir staka ferð undir fjörð runnu tæplega 400 krónur í annað en fjármögnun mannvirkisins og viðhald ganganna. Það myndi muna um það að hafa þessar 590 milljónir króna aukalega til vegagerðar árlega.

Góðar samgöngur eru forsenda búsetu og öflugs athafnalífs hér á landi og nauðsynlegt að vegirnir séu góðir og öruggir. Skattar sem eiga að renna til vegamála gera það ekki. Erlendar rannsóknir sýna mikla þjóðhagslega arðsemi vegabóta.

Hækkun skatta

Hærri álögur á bíleigendur standa fyrir dyrum. Ekkert hefur komið frá fjármálaráðherra varðandi mögulegar mótvægisaðgerðir vegna breytinga á stöðlum um eyðslu og mengun ökutækja í september.  Þessar breytingar munu að óbreyttu hækka verulega gjöld af nýjum bílum og síðan áfram árleg bifreiðagjöld. Nokkur Evrópulönd hafa þegar tekið ákvörðun um aðgerðir til að tryggja það að endurbættur staðall auki ekki skatta af bílum. Í fjárlögum fyrir 2018 voru skattar ríkisins af eldsneyti hækkaðir og jafnframt boðað að álögur yrðu enn auknar á næsta ári m.a. með hækkun á svokölluðu kolefnisgjaldi. Skattaálögur íslenska ríkisins á eldsneyti eru með þeim hæstu í Evrópu.