Björgunarsveitin Ársæll fær Mercedes-Benz bíla

Í lok síðasta árs tók Björgunarsveitin Ársæll þá ákvörðun að kaupa Mercedes-Benz Atego 4x4 bíl af Bílaumboðinu Öskju. Bílnum verður breytt í hópferðabíl í þeim tilgangi að flytja meðlimi sveitarinnar í útköll og til æfinga.

Þar sem um umtalverða fjárfestingu er að ræða ákvað Bílaumboðið Askja að fá Daimler AG og Samskip í lið með sér og styrktu þessir aðilar kaup sveitarinnar á bílnum. 

Á dögunum var stór dagur í starfi Ársæls þegar þeir fengu bílinn afhentan. Atego bíllinn er öflugur aldrifsbíll sem mun taka 20 farþega í sæti þegar hann er fullbúinn, eða hafa færri sæti og meira af búnaði.

Bíllinn um til að mynda nýtast vel í hálendisvakt björgunarsveitanna. Á sama tíma fékk björgunarsveitin einnig afhentan Mercedes-Benz Vito sem búið er að breyta þannig að hann henti starfi sveitarinnar.

„Við hjá Öskju erum mjög ánægð að geta veitt björgunarsveitinni Ársæl stuðning í að eignast þennan öfluga Mercedes-Benz Atego sem mun koma sveitinni til góða í þeim krefjandi verkefnum sem hún vinnur í. Það er líka ánægjulegt að hafa fengið Daimler AG og Samskip í lið með okkur í þetta verkefni og styðja gott málefni. Við erum sannfærð um að Vito bíllinn muni einnig nýtast þeim vel, björgunarsveitarmenn vinna ómetanlegt starf og eru alltaf til staðar í hvaða veðrum og aðstæðum sem er og koma öðrum til bjargar á ögurstundu,“segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Á myndinni takast þeir í hendur,  Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju, Vilhjálmur Halldórsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ársæls, og Bjarni Grétarsson, viðskiptastjóri hjá Samskipum.