Blöndun tréspíra í bensín

Í grein sem Hjalti Andrason líffræðingur ritar og birtist í Fréttablaðinu í gær, 17.-11. 2011 eru settir alvarlegir fyrirvarar við tilraunir hér á landi sem felast í því að framleiða tréspíra og blanda síðan saman við bensín. Tréspíri er hættulegt eiturefni sem auðveldlega getur valdið stórfelldum líffæra- og taugaskemmdum í mönnum.

Framleiðsla á tréspíra er hafin á Íslandi og fer að nokkru fram undir merkjum umhverfisverndar á þann hátt að koltvísýringur úr jarðgufu er nýttur sem annars bærist út í andrúmsloftið. Fyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur reist verksmiðju á Reykjanesi. Í henni er koldíoxíð skilið  úr jarðgufu og raforka jarðhitaorkuvers notuð til að framleiða metan. Metaninu og koltvísýringnum er svo blandað saman með efnafræðilegum aðferðum og úr verður metanól eða tréspíri. Honum er svo blandað við bensín að þremur prósentum og byrjað er að selja þessa blöndu frá einni af afgreiðsludælum bensínstöðvar við Kringlumýrarbraut.

Verkefnið hefur undanfarið verið kynnt sem stórt skref fram á við í umhverfisvernd og merkilegt frumkvöðulsstarf og nýsköpun. Lítið eða ekkert hefur hins vegar verið minnst á að þótt 3% íblöndun teljist ekki stórt hlutfall, þá eykst rokgirni blöndunnar miðað við bensín sem óblandað er tréspíra. Um það segir í grein Hjalta:

Flestir kannast við að finna bensínlykt á bensínstöðvum og ljóst að við öndum að okkur þeim rokgjörnu efnum sem í bensíni er að finna. Óhjákvæmilega vakna ýmsar spurningar þegar bæta á metanóli í bensín. Hvaða áhrif hefur innöndun á metanóli á viðskiptavini og starfsfólk bensínstöðva? Hvaða áhrif hefur þessi íblöndun á óléttar konur sem dæla á tankinn og fóstur þeirra? Eituráhrif metanóls koma ekki fram fyrr en 8-24 klst. eftir snertingu við efnið. Hvernig eiga viðskiptavinir sem verða fyrir vanlíðan að tengja það við ferð á bensínstöð, til dæmis daginn áður, sér í lagi ef engar viðvaranir eru á dælunum? Þetta þýðir að erfitt verður að sýna fram á orsakatengsl. Einnig vakna spurningar um það mikla magn leysiefna sem þarf til að blanda metanóli í bensín og formaldehýðs sem myndast við brennslu á metanóli. Þessi efni eru einnig skaðleg heilsu manna.“

Þá virkar tréspírinn ætandi á þéttingar og pakkningar í eldsneytiskerfum bíla og flýtir sömuleiðis tæringu  í málmum. Um þetta má lesa víða og m.a. í ítarlegri sænskri rannsóknarskýrslu frá 1996. Svipaðar tilraunir höfðu þá farið fram í m.a. Bandaríkjunum og Brasilíu og í Kaliforníu voru allar hugmyndir um að blanda tréspíra í bensín lagðar á hilluna með banni árið 2003. Forsendur þessa banns voru fyrst og fremst lýðheilsusjónarmið. Það þótti semsé ekki góð latína að nota eitur sem háskalegt er heilsu og velferð fólks til að bæta andrúmsloftið og í nafni umhverfisverndar.

Talsmenn metanólíblöndunar eru greinilega ósmeykir við tréspírablöndunina. Þeir telja kostina ótvíræða eins og fram kemur í eftirfarandi samantekt frá CRI:

http://www.fib.is/myndir/Kostir-metanols.jpg