BMW 5 uppáhaldsbíll Þjóðverja

250.000 félagsmenn í ADAC, systurfélagi FÍB í Þýskalandi, kusu BMW 5 uppáhaldsbíl Þjóðverja í árlegri atkvæðagreiðslu um hver sé uppáhaldsbíllinn. Þá hafa starfsmenn og tæknimenn ADAC valið besta bílinn, framtíðarbílinn o.fl. Í þremur efstu sætunum yfir uppáhaldsbílinn eru fyrir utan BMW 5 bílinn, Mercedes CLS og Audi A1 í því þriðja – allt þýskir bílar.

http://www.fib.is/myndir/BMW-5-2011.jpg
BMW 5. Uppáhaldsbíll Þjóðverja.
http://www.fib.is/myndir/Porsche-911-2009.jpg
Porsche 911. Bilar minnst.

 Auk þess að kosið væri um besta bílinn var kosið um hvaða bíll væri merkilegastur tækni- og umhverfisverndarlega, hver er tæknilega fullkomnastur, sérstæðastur o.fl. Allt þetta er gert í nafni Gulu englanna, sem er gælunafn yfir hjálpar- og neyðarþjónustu ADAC og sá bíll sem félagsmenn kjósa sem uppáhaldsbíl ársins fær titilinn Guli engillinn. Allt var þetta kunngjört við sérstök hátíðarhöld sl. fimmtudag í höfuðstöðvum ADAC í Munchen sjöunda árið í röð.

 Í þeim flokki sem nefnist Mesti gæðabíllinn er fyrst og fremst byggt á tölfræði frá Gulu englunum, hjálparþjónustu ADAC. Gulu englarnir sinntu yfir 3,5 milljónum bilanatilvika á vegum úti árið 2010 og þegar búið er að flokka og uppreikna bilanatilfellin miðað við eintakafjölda hverrar bíltegundar og –gerðar og hlutfall hennar af heildarbílaflotanum í Þýskalandi þá kemur í ljós að Porsche 911 er sá bíll sem sjaldnast bilar og verður stopp á vegum úti. Næstir Porsche 911 koma Audi A5 og Nissan Qashqai.

 Porscheforstjórinn Matthias Müller sagði við athöfnina í Munchen á fimmtudag að veruleikinn staðfesti þessa niðurstöðu ADAC því að 70 prósent allra þeirra Porsche 911 bíla sem byggðir hafa verið frá og með árinu 1963 eru ennþá á skrá og í umferð.

 Í flokknum  „Tækni og umhverfismildi" var höfuðáherslan á umferðaröryggi að þessu sinni. Það færði Mercedes Benz heim sigur í flokknum fyrir kerfi sem les kant- og miðlínur vega og greinir hindranir framundan. Kerfið bæði aðvarar ökumann og grípur inn í aksturinn ef bíllinn er við að fara útaf eða inn á akreinina á móti og ef árekstur er yfirvofandi.

 Nýr verðlaunaflokkur var tekinn upp að þessu sinni en það er „Framtíðarbíllinn.“ Það er tæknimiðstöð ADAC í Landsberg sem útnefnir framtíðarbílinn. Úr alls 431 bíl sem skoðaður var í Landsberg var Toyota Auris Hybrid valinn framtíðarvagn ársins. Næstur varð metangasdrifinn VW Touran  1,4 TSI Eco-Fuel og í þriðja sætinu varð BMW 320d Blue Performance.