BMW ber að greiða viðgerðir á gölluðum tímakeðjubúnaði

Nokkrar undirgerðir svonefndra N47 dísilvéla í BMW bílum (alls ekki allar) geta haft þann galla að slaki kemur á tímakeðjuna í vélinni. Þegar það gerist getur það endað með því að keðjan fer útaf tannhjólum sínum og vélarnar eyðileggjast gersamlega.

Fyrstu einkenni þessa eru þau að skrölt eða glamur fer að heyrast frá vélinni og gangur hennar verður óreglulegur. Þegar það gerist þarf að bregðast strax við og skipta út strekkjara fyrir tímakeðjuna og jafnvel keðjunni líka. Annars fer allt á versta veg. Svíinn Jonathan Ossenkamp brást við í tæka tíð og lét gera við bíl sinn á BMW verkstæðinu sem hafði þjónustað bílinn frá því hann var nýr. Fyrir viðgerðina greiddi hann hátt í 800 þús. ísl. kr. Bæði innflytjandi BMW í Svíþjóð og sölu- og þjónustuumboð bílsins neituðu hlutdeild í viðgerðakostnaðinum og greiddi hann verkstæðisreikningin því úr eigin vasa. Auto Motor & Sport í Svíþjóð greinir frá þessu.

Bíll Ossenkamps var  BMW 318d Touring árgerð 2008. Teljarinn stóð í 150 þús. km þegar hann kom með bílinn á BMW verkstæði í þjónustuskoðun. Þar var Ossenkamp sagt að gera þyrfti strax við tímakeðjubúnaðinn til að forða því að vélin eyðilegðist algerlega. Viðgerðin kostaði 50.146,- sænskar kr. Umræddar N47 dísilvélar er að finna í mörgum gerðum BMW bíla eins og 1, 3, 5 og X línunum. Bílar með þessum vélum eru gjarnan auðkenndir að aftanverðu með -16d, -18d, -20d og -23d.

Ossenkamp var að vonum ekki ánægður meðþennan háa viðgerðarreikning á bílnum sem hann hafði keypt nýjan rúmum þremur árum fyrr og látið þjónusta hann hjá BMW alla tíð og algerlega samkvæmt fyrirmælum framleiðandans. Hann lagði málið því fyrir hina sænsku kærunefnd í lausafjár- og þjónustukaupamálum. Nefndin hefur nú úrskurðað í þessu og fleiri samskonar málum sem síðar hafa komið upp um tímakeðjur BMW vélanna. Úrskurðurinn er á þá leið að þetta sé galli í vélunum sem BMW beri að lagfæra óháð því hvort bílarnir eru enn í ábyrgð, aldri þeirra og hve mikið þeim hefði verið ekið.

Jonathan Ossenkamp er alls ekki ánægður með samskiptin við BMW vegna þessa máls. Þegar hann fór skriflega fram á endurgreiðslu viðgerðarkostnaðarins tók BMW í Svíþjóð sér hálft ár í að svara kröfunni neitandi og algerlega án minnsta rökstuðnings. Sér hefði því verið nauðugur einn kostur að vísa málinu til kærunefndarinnar. Hann segir við Auto motor & Sport að hann muni ekki skipta frekar við BMW á lífsleiðinni. „Það er ekki vegna þess að BMW bílar séu slæmir heldur vegna þess hvernig bæði söluumboðið og innflytjandinn hafa komið fram.“

Úrskurðir sænsku kærunefndarinnar hafa ekki lagagildi þannig að BMW er í sjálfsvald sett hvort Ossenkamp fái útlagðan kostnað sinn endurgreiddan. En endurgreiði BMW ekki verður BMW í Svíþjóð sett á svartan lista neytendatímaritsins  Råd & Rön.